Námið

Námið

Menntaskólinn á Egilsstöðum starfar samkvæmt nýrri námskrá framhaldsskóla og er einn af fyrstu framhaldsskólum landsins sem aðlaga skólastarf að framhaldsskólalögunum frá árinu 2008. Samhliða upptöku nýrrar námskrár var skólaárinu skipt í fjórar spannir auk þess sem kennslustundum var skipt í bundna tíma og verkefnatíma. 

Spannir
Tvær 8 vikna spannir eru á hvorri önn, 7 kennsluvikur og ein prófavika. Meðalnám á hverri spönn er 15 einingar og lýkur nemandi því um 60 einingum á skólaárinu. Lögð er áhersla á fjölbreyttar kennslu- og námsmatsaðferðir til þess að mæta margbreytilegum hópi nemenda og því allt eins líklegt að sérstakir prófadagar líði undir lok þegar fram í sækir. Með því að skipta önninni í tvær spannir er nemendum gefinn kostur á að einbeita sér að færri námsgreinum í einu. Þeir geta því kafað dýpra í námsefnið og sinnt hverju verkefni betur. 

Verkefnatímar
Kennslustundum er skipt í bundna tíma og verkefnatíma. Í bundnum tímum er nemandinn í kennslustund hjá kennaranum í faginu og í verkefnatímum vinna nemendur, einir eða í hópum, að verkefnum í þeim námsgreinum sem þeir stunda þá spönnina og hafa kennara sér til aðstoðar. Oft er hægt að ljúka heimavinnu í verkefnatímum og getur því nemandinn sinnt öðru eftir að skóladegi lýkur. Kennsluhættir taka mið af aukinni verkefnavinnu og stuðla verkefnatímar að aukinni virkni og ábyrgð nemandans. Eru flestir sammála um að kerfið henti nemendum mjög vel.

Hafðu samband

v/Tjarnarbraut
700 Egilsstaðir
Netfang: skrifstofa@me.is
Sími: 471-2500
Kt. 610676-0579