Fréttir og greinar

Stjórnendur og starfsmenn undirbúa nú komandi skólaár af miklu kappi. Nýir kennarar eru í nýliðaþjálfun, kennarar koma til starfa á mánudag og skólinn verður settur á miðvikudaginn 21. ágúst kl. 10. Skólasetning fer fram á sal (sem ber heitið Snæfell) og er hann í heimavistarhúsinu á efri hæð. Strax að lokinni skólasetningu verður svo kennt eftir sérstakri stundaskrá sem á einungis við um fyrsa daginn (aðgengileg á heimasíðu þegar nær dregur)

Við hvetjum nemendur til að undirbúa sig vel, huga að námsgögnum og námsbókum. Við hlökkum gríðarlega til komandi skólaárs og samverunnar.

Heimavistin verður klár fyrir sína íbúa á þriðjudaginn 20. ágúst og opnar kl. 17:00

Stundaskrár verða sýnilegar um leið og þær eru klárar og vinnur nýr áfangastjóri okkar hún Bergþóra, hörðum höndum að því að klára þær. Bréf fara út til nýnema með öllum helstu upplýsingum eins fljótt og verða má. 

Fjarnemar fá svör við sínum umsóknum í skólabyrjun.

Hlökkum til samstarfsins.

Búið er að opna fyrir umsóknarvefinn vegna fjarnáms við ME í haust. Umsóknarfrestur er til 20. ágúst en kennsla hefst þann 21. ágúst. Umsóknarvefurinn er undir flipanum "fjarnám" hér á heimasíðunni.

Hægt er að stunda fjarnám í flestum áföngum sem kenndir eru við Menntaskólann á Egilsstöðum. Notað er fjarkennslukerfið Moodle sem vistað er á www.kennsluvefur.is. Hverri önn er skipt í tvær u.þ.b. 8 vikna lotur sem við köllum spannir (fyrri og seinni), sjá „Skólanámskrá“ undir SKÓLINN hér fyrir ofan til hægri. Fjarnámið fylgir skipulagi dagskólans í meginatriðum.

Áfangar eru yfirleitt kenndir á einni spönn sem þýðir að fjarnemar sem taka einn til tvo áfanga á spönn geta lokið allt að fjórum áföngum samtals á önn. Ekki er mælt með að teknir séu fleiri áfangar í einu með öðru námi eða vinnu þar sem nám í spannakerfi er á tvöföldum hraða miðað við hefðbundið annarkerfi. Þrír áfangar á spönn teljast vera fullt nám og eru algjört hámark í fjarnámi.

Tekið er við umsóknum fyrir heila önn í einu, þ.e. báðar spannir annarinnar, en einnig getur verið möguleiki að koma beint inn á seinni spönn ef pláss leyfir. Ekki hefur reynst unnt að samþykkja allar fjarnámsumsóknir undanfarin misseri vegna fjölda umsókna, því borgar sig að sækja snemma um.

Fjarnámið í ME hefur fengið mjög góða dóma og leggja kennarar skólans metnað í að sinna nemendum af alúð. Myndin hér að neðan sýnir heildar mat úr könnun sem lögð var fyrir fjarnema 2013 og 2017. Þar sést að mikill meirihluti nemenda meta námið mjög gott og gott. Gjarnan eru helstu kostir fjarnámsins sem nefndir eru í könnunum spannirnar, góðir kennarar og gott skipulag.

fjarnam metid

Hluti af skólastarfinu er að meta árangur í innra starfi og ytra. Hluti af því sem nefnd um innra mat skólans tekur sér fyrir hendur á hverju ári eru kannanir sem lagðar eru fyrir nemendur um liðan og hagi, áfangamat þar sem nemendum gefst kostur á að meta áfangana sem þau sitja og fleira í þeim dúr. Innramatið leggur fyrir kennarakönnun árlega og við tökum þátt í könnun SFR um stofnun ársins. Niðurstöður eru aðgengilegar á svæði innramatsins hér á heimasíðunni. ME leggur metnað sinn í að huga að líðan bæði nemenda og starfsmanna og nýtir niðurstöðurnar til að bæta gott skólastarf og vinnustaðinn í heild sinni. Í ár er einnig í gangi rannsókn á afdrifum útskrifaðra nemenda sem verðua tilbúnar til kynninga í kring um afmælisdag skólans í október.

Í ár kom Menntaskólinn mjög vel út úr könnuninni um stofnun ársins. ME var í 11. sæti í samanburði við allar stofnanir ríkisins, óháð stærð. Ef stofnanir í sama stærðarflokki eru skoðaðar er ME í 7. sæti yfir heildina. Þegar menntaskólar eru taldir úr heildar listanum er ME í 4 sæti yfir þá framhaldsskóla sem tóku þátt í könnuninni.
ME bætti sig í flestum þeim þáttum sem mældir eru og er það vel. Niðurstöðurnar eru samhljóma niðurstöðum kennarakönnunar sem einnig var framkvæmd nú á vormánuðum. Almenn starfsánægja er í ME og líðan góð. Þó eru þættir sem vinna þarf með og er álag og streita þar efst á blaði.
Í nemendakönnunum er ánægja með skólann, nemendum líður vel og eru ánægðir með kennsluna. Þættir sem koma ekki eins vel út fara í umbótaáætlun og unnið er markvisst í því að bæta þá. Markmiðið er jú alltaf að bæta skólastarfið milli ára.

Útskrift frá Menntaskólanum á Egilsstöðum fór fram í dag í Egilsstaðakirkju. 28 voru útskrifaðir af 3 brautum. 1 útskrifaðist af starfsbraut, 13 útskrifuðust af félagsgreinabraut og 14 af núttúrufræðibraut. Glæsilegur hópur ungmenna sem á framtíðina fyrir sér.

Nokkrir nemendur sem skarað höfðu fram úr í námi og störfum fengu viðurkenningar fyrir góðan árangur. Gaman er að segja frá því að útskriftarhópurinn í ár var alveg sérstaklega sterkur námshópur.  Dúx skólans með meðaleinkunnina 9,7 er Rán Finnsdóttir.

Starfsfólk skólans óskar útskriftarnemendum og fjölskyldum þeirra til hamingju með áfangann og þakkar fyrir samfylgdina.

Myndir frá deginum má finna hér

Hafðu samband

v/Tjarnarbraut
700 Egilsstaðir
Netfang: skrifstofa@me.is
Sími: 471-2500
Kt. 610676-0579