Jafnlaunastefna ME

Jafnlaunastefnu Menntaskólans á Egilsstöðum er ætlað að tryggja þau réttindi sem fram koma í 19.-22. grein laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Skólinn skuldbindur sig ennfremur til að fylgja viðeigandi lagalegum kröfum og öðrum kröfum sem varða meginregluna um að konum og körlum skuli greidd jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Jafnlaunastefnan er nátengd jafnréttisstefnu skólans og starfsmannastefnu og nær yfir öll störf sem unnin eru innan Menntaskólans á Egilsstöðum.

Til að uppfylla skilyrði laganna og jafnlaunastefnunnar er ákveðið verklag viðhaft við launaákvarðanir innan stofnunarinnar sem hefur það að markmiði að tryggja heildarsýn yfir laun, stöðugar umbætur á launakerfinu, eftirlit með kynbundnum launamun og viðbrögðum sem felast í því að leiðrétta kynbundinn launamun tafarlaust komi hann í ljós. Kynbundinn launamunur er sá óútskýrði munur á launum karla og kvenna sem eftir stendur þegar tekið hefur verið tillit til þeirra þátta sem ákvarða laun starfsmanna ME hverju sinni.

Menntaskólinn á Egilsstöðum starfar eftir íslenska jafnlaunastaðlinum ÍST85:2012.

Skólinn einsetur sér að fylgja þeim jafnlaunamarkmiðum sem sett hafa verið. Rýnifundir stjórnenda munu fara fram ár hvert þar sem farið er yfir markmið og stefnu jafnlaunakerfisins og gerð innri úttekt. Þar skapast tækifæri til umbóta og breytinga ef þörf er á. Jafnlaunakerfið er hluti af starfsemi skólans og verður hluti af árlegri umbótaáætlun hans.

Kerfinu er viðhaldið og markmiðin og stefnan ítrekað endurskoðuð og bætt ef þurfa þykir. Markmið jafnlaunakerfisins er að nýta hæfni, krafta og kunnáttu starfsmanna til fulls án þess að kynbundinn mismunur eigi sér stað. Partur af jafnlaunakerfinu er jafnréttisstefna ME ásamt jafnréttisáætluninni. Með jafnréttisáætluninni eru stjórnendur og aðrir starfsmenn jafnframt minntir á mikilvægi þess að allir fái notið sín óháð kynferði, trúarbrögðum, fötlun, skoðunum, þjóðerni, kynþætti, kynhneigð, aldri og stöðu að öðru leyti. Þannig ber ME að leggja sig fram um að nýta til jafns þá auðlegð sem felst í menntun, reynslu og viðhorfum kvenna og karla.

Stefnan var kynnt á kennarafundi þann 4. nóvember 2019 og sent öllum starfsmönnum ME til yfirlestrar sama dag.

Stefnan hefur verið kynnt skólanefnd.

 

Menntaskólinn á Egilsstöðum hlaut jafnlaunavottun snemma árs 2020.