35 nýstúdentar frá ME

Útskrift ME haustið 2020
Útskrift ME haustið 2020

Í dag útskrifuðust 35 nemendur úr Menntaskólanum á Egilsstöðum, 31 af félagsgreinabraut, 1 af listnámsbraut og 3 af náttúrufræðibraut. Útskriftin var með óhefðbundnu sniði en aðeins útskriftarnemendur og þeir starfsmenn sem höfðu beina aðkomu að athöfninni voru viðstaddir. Útskriftin var í beinni útsendingu á Facebook síðu skólans. Aldrei hafa fleiri nemendur útskrifast frá ME að hausti.

Á útskriftinni fóru Árni Ólason skólameistari yfir skólastarfið það sem af er skólaársins og Bergþóra Arnórsdóttir áfangastjóri stýrði athöfninni og verðlaunaafhendingum. Þá voru sýndar kveðjur frá starfsmönnum ME sem taka ofan fyrir nemendum, og kveðja frá menntamálaráðherra sem hrósaði nemendum fyrir þrautseigju og seiglu. Vernharður Ingi Snæþórsson fyrrverandi formaður NME flutti ávarp nýstúdents.

Dúx skólans haustið 2020 er Valgeir Jökull Brynjarsson. Valgeir var með meðaleinkunnina 8.96. Valgeiri var hrósað fyrir góðan námsárangur en jafnframt var honum hrósað fyrir að sjá björtu hliðarnar í tilverunni, fyrir eljusemi og jákvæðni.

Starfsfólk ME óskar nýstúdentum öllum innilega til hamingju með áfangann með velfarnaðaróskum til framtíðar.

Nokkrar myndir frá athöfninni má finna hér.