Fjarnám í ME

Hægt er að stunda fjarnám í flestum áföngum sem kenndir eru við Menntaskólann á Egilsstöðum. Opnað verður fyrir umsóknir á seinni haustspönn þann 1. september. Skólaárið skiptist í fjórar u.þ.b. 8 vikna lotur sem kallast spannir, tvær á haustönn og tvær á vorönn (fyrri og seinni). Ekki er mælt með að nemandi taki fleiri en tvo áfanga á spönn með öðru námi eða vinnu þar sem nám í spannakerfi er á tvöföldum hraða miðað við hefðbundið annakerfi. Tekið er við umsóknum fyrir heila önn í einu, þ.e. báðar spannir annarinnar en einnig getur verið mögulegt að koma beint inn á seinni spönn ef pláss leyfir. 

Svarbréf eru send til umsækjenda um það leyti sem kennslan hefst ásamt greiðslukröfu í heimabanka. Í svarbréfinu eru m.a. upplýsingar um ME-netfang sem nemendur fá í upphafi náms og aðgangsorð. Mikilvægt er að fjarnemar noti ME netfangið því þangað fer allur póstur frá skólanum og kennurum og það gefur aðgang að námsvefnum Canvas. Fjarnemar skólans fá vefútgáfu (online) af Office-forritum í gegnum ME-netfangið. Nemandi þarf að vera með fartölvu og góða nettengingu. Mikilvægt er að nemendur fari strax inn á Canvas og sinni náminu þar reglulega. 

Menntaskólinn á Egilsstöðum býður í samstarfi við 11 aðra framhaldsskóla á landsbyggðinni upp á fjarnám á starfsnámsbrautum undir nafni Fjarmenntaskólans. Nánari upplýsingar eru á fjarmenntaskolinn.is. Áætlað er að taka inn nýjan hóp á félagsliðabraut í umsjón ME haustið 2021 en brautin hefur nú verið skipulögð á 3. þrepi og samþykkt þannig. 

Nánari upplýsingar í síma 471-2500 eða hjá kennslustjóra fjarnáms á fjarnam@me.is.