Náms- og starfsráðgjöf

Náms- og starfsráðgjafi ME sinnir m.a. almennri náms- og starfsráðgjöf sem meðal annars snýr að því að aðstoða nemendur við að átta sig á styrkleikum sínum, færni og áhuga til að þau eigi hægara með að ákveða stefnu í námi og starfi. Auk þess aðstoðar náms- og starfsráðgjafi ME nemendur við tímastjórnun, námstækni og styður við nemendur í námi.


NANNA H. IMSLAND

Náms- og starfsráðgjafi (nanna@me.is)
Viðtalstímar alla virka daga frá 9:0-16.00. 

Nanna í 5 jákvæðum lýsingarorðum:
Metnaðarfull, heiðarleg, útsjónarsöm, þolinmóð og staðföst
Lífsmottó Nönnu:
"Yesterday is history, tomorrow is a mystery, and today is a gift: That’s why they call it ‘the present’."
Lífsgildi Nönnu:
Þakklæti, þrautseigja, traust, fjölskylda, umburðarlyndi og réttlæti.

BÓKA VIÐTAL

 


Hvað gera náms- og starfsráðgjafar?


Hér má nálgast fleiri kynningarmyndbönd frá Félagi náms- og starfsráðgjafa. 

Ertu að velta fyrir þér draumanáminu/starfinu en veist ekki hvernig þú getur undirbúið þig sem best?

Náms- og starfsráðgjafar miðla upplýsingum um möguleika og framboð á námi og störfum. Þeir leggja sig fram við að þekkja skólakerfið og aðstoða fólk við að tengja saman nauðsynlegan undirbúning og þjálfun ákveðinnar þekkingar, hæfni og leikni, við draumanám og störf. Náms- og starfsráðgjafi getur aðstoðað þig við að skipuleggja skrefin í átt að markmiðinu þínu. Ef þú ert týnd/ur og veist ekki hvar áhuginn þinn liggur gæti verið sniðugt að taka áhugasviðskönnun hjá náms- og starfsráðgjafa.

Er frestunaráráttan að fara með þig?

Náms- og starfsráðgjafi getur frætt þig um leiðir sem og bent á aðferðir til að draga úr frestunaráráttu. Á meðal þátta sem getur verið gott að velta fyrir sér og fræðast um er eigið sjálfsmat og þær hugmyndir sem við höfum um okkur sjálf, færni í skipulagi og forgangsröðun, markmiðssetningu, vinnubrögð, möguleg tengsl kvíða og frestunar og margt fleira.

Dreymir þig um betra skipulag og árangursríkari tímastjórnun?

Er to-do listinn þinn fullur af verkefnum og þú átt í erfiðleikum með að velja verkefni til að byrja á? Náms- og starfsráðgjafar geta leiðbeint og aðstoðað fólk sem vill læra aðferðir sem henta hverjum og einum við forgangsröðun svo sá hinn sami sé örugglega að tækla sín mest aðkallandi verkefni og þau mikilvægustu til lengri tíma litið.

Viltu tileinka þér betri námstækni og vinnubrögð í námi?

Náms- og starfsráðgjafar eru vel að sér í akademískum vinnubrögðum. Þeir þekkja til árangursríkrar námstækni svo sem lestrar- og glósutækni. Mismunandi námsferðir henta hverjum og einum og náms- og starfsráðgjafi getur aðstoðað þig við að finna út hvaða leiðir myndu henta þér. Þeir aðstoða nemendur jafnframt við að vinna úr prófkvíða og leiðbeina með próftökutækni.

Ertu að ströggla í náminu?

Kannski væri tilvalið að heyra í náms- og starfsráðgjafa og spjalla um hvaða þættir séu mögulega að halda aftur af þér og koma í veg fyrir að þú sért að blómstra? Ýmsir þættir geta hér haft áhrif, s.s. eins og líðan og utanaðkomandi álag, námserfiðleikar eða þættir sem snúa að áhugasviði, óskýrum markmiðum og tilgangi sem og skortur á yfirsýn og skipulagi.

Viltu fræðast meira um leiðir til að vinna með lesblindu og ADHD?

Náms- og starfsráðgjafar sinna margir hverjir fræðslu til nemenda með sértæka námsörðugleika. Einnig luma þeir á ýmsum ráðum sem nemendur geta nýtt sér í námi og starfi. Þar ber m.a. að nefna námstækniaðferðir auk forrita í tölvum og símum sem styðja nemendur við lestur, ritun, skipulag, tímastjórnun og margt fleira. Einnig er mjög mikilvægt að hver og einn þekki birtingarmyndir sinnar lesblindu eða sín ADHD einkenni og hvaða leiðir gagnast vel til að vinna með þau.

Átt þú rétt á sérúrræðum í prófum og námsmati?

Náms- og starfsráðgjafar sem starfa innan menntakerfisins halda oft utan um umsóknir um sérúrræði í prófum og námsmati. Ef þú ert til dæmis með lesblindu, ADHD, hefur verið að glíma við mikinn prófkvíða eða hvað annað sem hefur aftrað þér í að koma vitneskju þinni frá þér, átt þú mögulega rétt á sérúrræðum svo þú standir réttilega jafnfætis öðrum nemendum. Í ME er auglýst eftir umsóknum um sérúrræði í prófum undir lok hverrar spannar. Ýmis konar úrræði geta verið í boði, t.d. að fá að taka próf í fámenni, upplestur eða hafa tónlist í eyrum.

Ertu að fara að sækja um starf eða á leið í atvinnuviðtal?

Það er mjög mikilvægt að mæta undirbúinn í atvinnuviðtal og að öll umsóknargögn séu yfirfarin og líti vel út. Veistu hvers konar spurningar þú gætir mögulega fengið? Er ferilskráin þín nógu skýr og skilmerkileg? (Ertu nokkuð með netfangið sexybeast@hotmail.com á henni?) Vantar þig aðstoð við gerð kynningarbréfs? Náms- og starfsráðgjafi getur aðstoðað þig!

Er of mikið að gera? Viltu minnka álag og streitu en veist ekki hvernig þú vilt fara að því?

Stundum verður mikið ójafnvægi á að öllum þeim hlutverkum sem við sinnum í okkar lífi og þá getur verið gott að staldra við og fara yfir málin með náms- og starfsráðgjafa og leita leiða til að ná jafnvægi á ný.

Ertu að glíma við vanlíðan og veist ekki hvaða skref þú ættir að taka í átt að betri líðan?

Náms- og starfsráðgjafar sinna, auk hefðbundinnar náms- og starfsráðgjafar, persónulegri ráðgjöf. Þeir þekkja leiðir innan heilbrigðis- og velferðarkerfisins og geta vísað áfram á viðeigandi stuðning. Í ME erum við jafnframt svo heppin að hafa félagsráðgjafa starfandi við skólann sem sérhæfir sig jafnframt í persónulegum, geðrænum og félagslegum erfiðleikum og styður hún sérstaklega við nemendur sem glíma við slíkar áskoranir. Nánar um félagsráðgjafa ME hér.