Um Menntaskólann á Egilsstöðum

Ágrip af sögu ME

Menntaskólinn á Egilsstöðum

Skólinn var settur í fyrsta sinn 14. október 1979 í húsnæði sem byggt var fyrir heimavist og mötuneyti. Kennt var í bráðabirgðakennslustofum sem flestar voru á neðstu hæð heimavistarálmu og á efri hæð mötuneytisálmu þar sem eldhúsið átti að vera samkvæmt teikningum. Árið 1983 var annar áfangi heimavistarálmu fullbúinn og hægt að taka við 130 nemendum á vist. Í febrúar 1984 var tekinn í notkun fyrri hluti íþróttahúss sem skólinn, það er ríkið, á um þriðjung í og alla tíð síðan hefur íþróttalíf nemenda verið öflugt. Fyrsti áfangi kennsluhúss var tekinn í notkun 1989 og rýmkaðist þá mjög um nemendur og starfsfólk. Árið 1991 flutti mötuneyti skólans á sinn rétta stað í húsinu eftir að innréttað var eldhús og 130 manna borðsalur á svæði sem var upphaflega ætlað fyrir eldhúsið eitt og sér. Annar áfangi kennsluhússins var tekinn í notkun árið 2006 en í honum er, auk hefðbundinna kennslustofa, vel búinn fyrirlestrarsalur. Einnig voru vinnuaðstaða og kaffistofa starfsfólks færðar inn í þennan hluta og er óhætt að segja að aðbúnaður hafi batnað til muna. Reglulega er unnið að breytingum og bætingum á húsnæði skólans og aðbúnaði. Þá var tekin í notkun tæknismiðja haustið 2019 sem bætir enn aðstöðu nemenda til að nýta nútíma tækni í skólastarfinu.Kennsluhús í byggingu 2005

Skólinn hefur frá fyrstu tíð starfað eftir áfangakerfi sem er sveigjanlegt og gefur nemendum kost á misjöfnum námshraða. Á vorönn 1983 var brugðið út af hefðbundnum kennsluháttum við skólann og komið á fót svonefndu opnu kerfi sem síðar var kallað stoðkerfi. Nemendum var í sjálfsvald sett hvaða stoðtíma þeir mættu í og hvaða verkefnum þeir sinntu. Kennarar voru til staðar í tilteknum stofum, tilbúnir að veita aðstoð sína. Þannig fól stoðkerfið í sér aukna ábyrgð nemenda á eigin námi. Kerfið var við lýði í skólanum í rúma tvo áratugi en tók nokkrum breytingum í gegnum árin.
Haustið 2011 hóf skólinn að starfa eftir nýrri námskrá og samhliða því var ákveðið að breyta kennsluháttum umtalsvert. Í stað tveggja anna var skólaárinu skipt í fjórar spannir þar sem nemendur einbeita sér að færri námsgreinum í einu og ljúka áföngum á skemmri tíma. Einnig voru teknir upp verkefnatímar í anda stoðkerfisins, þó með mætingaskyldu. Þar vinna nemendur undir verkstjórn kennara en velja sjálfir hvaða námsgrein þeir sinna.

Auk venjubundinnar kennslu hefur mikið verið lagt upp úr kynnisferðum nemenda í tengslum við námið. Einnig hefur skapast hefð fyrir alþjóðasamstarfi og reglulegum nemendaferðum erlendis. Á vorönnum eru „opnir dagar“ sem nú kallast "fardagar", fastur liður en þá er hefðbundið skólastarf brotið upp og nemendur sinna ýmsum hugðarefnum sínum sem ekki falla innan ramma lögbundinnar námskrár.

Nemendafélag hefur starfað frá stofnun skólans. Félagið er hagsmunafélag nemenda og stendur fyrir ýmsum viðburðum í skólalífinu. Má þar nefna nýnemamóttöku, nýnemaball, árshátíð nemenda, söngkeppni (Barkann), dansleikjahald og heimsóknir ýmissa skemmtikrafta í skólann. Einnig hefur verið farið í heimsóknir í aðra framhaldsskóla. Nemendur skólans hafa tekið þátt í spurningakeppni framhaldsskólanna „Gettu betur”, söngkeppni framhaldsskólanna og Morfís. Íþróttafélag skólans starfar jafnan með miklum þrótti og á þess vegum eru skipulagðir kvöldtímar í íþróttahúsi, þátttaka á framhaldsskólamótum og íþróttaviðburðir í tengslum við skólaheimsóknir. Sýningar leikfélags ME hafa verið árviss viðburður í starfi skólans.

Þróunar- og þroskaferill Menntaskólans á Egilsstöðum er hvergi nærri á enda runninn. Skóli þróast í takt við samfélagið enda meginhlutverk hans að búa nemendur undir líf og starf í þjóðfélaginu og miðla menningararfinum til uppvaxandi kynslóða. ME hefur lagt áherslu á bóknám til stúdentsprófs auk náms í íþróttum og listum. Einnig hefur verið boðið upp á styttri námsbrautir og brautir fyrir fólk sem vinnur með námi. Fjarnám hefur verið sívaxandi þáttur í skólastarfinu og skólinn lagt sig fram um að bjóða upp á öflugt fjarkennsluumhverfi og vandaða kennslu. Af þessu má sjá að þrátt fyrir að skólinn haldi fast í upprunaleg gildi sín sem öflugur menntaskóli er og verður starfsemi hans í sífelldri mótun og þróun.

Skólanámskrá ME

Skólanámskrá er stefnuskrá skólans sem þarf að vera í sífelldri endurskoðun og þróun. Námskráin birtist á vefnum í stuttum köflum þar sem finna má tilvísanir í ítarlegri umfjöllun þegar það á við. Þetta er gert með það fyrir augum að verkið verði sem aðgengilegast fyrir lesendur hvort heldur nemendur, foreldra, starfsfólk eða aðra sem vilja kynna sér starfsemi Menntaskólans á Egilsstöðum.

Í framhaldsskólalögum nr. 92/2008 segir að sérhver framhaldsskóli skuli gefa út skólanámskrá sem skiptist í tvo hluta, almennan hluta og námsbrautarlýsingar. Í almennum hluta skólanámskrár er gerð grein fyrir starfsemi skólans, helstu áherslum og stefnumörkun, stjórnskipan, námsframboði og skipulagi náms, kennsluháttum, námsmati, stuðningi, ráðgjöf og þjónustu við nemendur, réttindum og skyldum nemenda, foreldrasamstarfi og samstarfi við utanaðkomandi aðila, sjálfsmati og gæðamálum og öðru sem skóli kýs að kveða á um í skólanámskrá. Jafnframt er gerð grein fyrir því hvernig skólinn uppfyllir skilyrði samkvæmt almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla og markmið laga og reglna. Framhaldsskólar setja sér námsbrautarlýsingar og leggja þær fyrir ráðherra til staðfestingar.
Skólanámskrá skal staðfest af skólanefnd að fenginni umsögn skólafundar. Skólanefnd fylgist með framkvæmd skólanámskrár.

Formleg vinna við skólanámskrá Menntaskólans á Egilsstöðum hófst haustið 2009 þegar farið var að vinna drög að nýjum námsbrautarlýsingum. Í kjölfarið hófu kennarar vinnu við gerð nýrra áfangalýsinga. Fljótlega kviknaði hugmynd um að skipta skólaárinu upp í fjórar spannir og setja stóran hluta kennslustunda undir verkefnatíma til móts við bundna tíma. Þetta kallaði á umtalsverðar breytingar á skólastarfi sem starfsfólk skólans hefur lagt mikinn tíma og metnað í. Vinna við almennan hluta námskrárinnar hófst árið 2012 og var ákveðið að leggja áherslu á birtingu námskrárinnar á heimasíðu skólans.
Þau ár sem námskrárgerðin stóð yfir voru ráðnir verkefnisstjórar til að halda utan um verkið, ýmist einn eða tveir í senn, og störfuðu þeir í nánum tengslum við stjórnendur og starfsmenn skólans. Frá upphafi komu starfsmenn ríkulega að námskrárgerðinni í stærri og smærri hópum. Námskrárteymi starfaði þann tíma sem vinnan var í gangi en það samanstóð af stjórnendum, kennslustjórum og verkefnisstjórum námskrárvinnu. Námskrárteymi var stjórnendum verksins til halds og trausts, m.a. varðandi verklag og tiltekna hluta námskrárinnar.

 

Uppfært 18.4.2020