Móttökuáætlanir

Mótttökuáætlun fyrir nemendur af erlendum uppruna

Í lögum nr. 92/2008 um framhaldskóla sem og í Aðalnámskrá framhaldsskóla frá árinu 2011 er kveðið á um að hver skóli skuli gera áætlun um móttöku nemenda af erlendum uppruna og rétt nemandans til náms í íslensku sem öðru tungumáli. Þar að auki byggir áætlun þessi á reglugerð nr. 65/2009 um rétt nemenda í framhaldsskólum til kennslu í íslensku, þar sem jafnframt er kveðið frekar á um tilhögun námsins og námsmat. Áætlunin gildir einnig um íslenska nemendur sem hafa búið lengi erlendis sem og tvítyngda nemendur ef grunnskólar/aðstandendur meta sem svo. Áætlunin tekur mið af skólanámskrá Menntaskólans á Egilsstöðum. Skólameistari ber ábyrgð á innritun og móttöku nýrra nemenda og tilkynnir nemendaþjónustu um innritun þeirra.

1 Umsókn um skólavist - innritun

1.1. Úr íslenskum grunnskóla í framhaldsskóla

Nemendur af erlendum uppruna sækja um skólavist í menntaskóla í gegnum Menntagátt líkt og aðrir nemendur sem eru að ljúka grunnskólanámi. Grunnskóli viðkomandi nemanda aðstoðar við umsóknarferlið. Ef nemandinn hefur enn litla færni í íslenskri tungu er hvatt til að grunnskóli nemandans hafi samband strax að vori og óski eftir að nemandinn fái að koma í heimsókn með starfsmanni grunnskólans (og forráðafólki sínu ef svo ber undir) og fái innritunarsamtal við náms- og starfsráðgjafa ME eða öðrum aðila í nemendaþjónustu skólans.

1.1.1. Skilafundir við grunnskóla

Á hverju vori eru haldnir skilafundir milli Menntaskólans á Egilsstöðum og grunnskóla á Austurlandi þar sem fengnar eru mikilvægar upplýsingar um nemendur sem hyggjast sækja nám við ME. Aðilar í nemendaþjónustu ME hitta þá sérkennslustjóra/umsjónarkennara nemenda. Til að hægt sé að ræða um málefni nemenda þarf að liggja fyrir samþykkisáætlun sem undirrituð er af forráðafólki og nemanda. Á skilafundum er farið yfir það sem kann að hafa áhrif á skólagöngu nemandans í framhaldsskóla. Skilafundir koma þó ekki í stað heimsóknar nemandans í ME og móttökuviðtals.

1.2 Frá öðru landi

Meginreglan er að veita nemendum sem eru af erlendum uppruna skólavist eins fljótt og auðið er og bjóða í innritunarviðtal. Ekki er beðið eftir því að þeir fái dvalarleyfi, heldur er áhersla lögð á að umsóknarferli sé komið af stað vegna þess. Allir nemendur verða að hafa kennitölu. Til að geta sótt um kennitölu fyrir nemandann verður annað foreldrið/forráðamaður að hafa dvalarleyfi. Framvísa þarf fæðingarvottorði viðkomandi hjá Þjóðskrá. Ath. að ef um að ræða skiptinema þá sjá skiptinemasamtök viðkomandi um að útvega nemanum kennitölu.

Sveitarfélög, Rauði krossinn og fleiri aðilar geta verið bakhjarlar nemanda, til að mynda þegar um er að ræða börn á flótta og mikilvægt að samstarf og samskipti séu góð þar á milli.

2 Móttökuviðtal

Fyrir upphaf skólagöngu er nemenda og forráðafólki (ef nemandinn er undir 18 ára) boðið í móttökuviðtal hjá ráðgjafa nemendaþjónustu eða stjórnanda. Túlkur er kallaður til ef þörf er á/fjölskyldan óskar og sér skólinn um að útvega hann. Í móttökuviðtalinu er m.a. farið yfir bakgrunn nemandans, styrkleika og veikleika hans og hvaða aðferðir og leiðir hafa virkað vel í námi hingað til. Lagt er mat á stöðu viðkomandi í íslensku og farið yfir möguleika í íslenskunámi, s.s. með tilliti til ÍSAN áfanga. Einnig er rætt um skólaskipulagið, skólareglur, þjónustu skólans og félagslíf ásamt því að gera sameiginlega tillögu að áfangavali annarinnar og útfærslu einstaklingsnámsskrár ef þarf. Starfsfólk sem tekur móttökuviðtal skal fylgja eftir „gátlista vegna móttökuviðtala nemenda af erlendum uppruna“.

3 Námið og skólinn

3.1. Fyrstu dagarnir í skólanum

Fyrsti dagur haustannar er svokallaður nýnemadagur. Þann dag eru allir nýir nemendur boðaðir á sérstakan kynningardag þar sem þau fá kennslu og þjálfun í Innu – upplýsingakerfi, á Canvas - námsvef skólans, nemendaþjónustu skólans, félagslífi og fleiru sem gagnlegt er að vita. Nemendur rölta einnig um húsakynni skólans. Þennan fyrsta dag er því ekki hefðbundin kennsla.

Lögð er áhersla á að nemendur hafi greiðan aðgang að aðilum nemendaþjónustu, kennara ÍSAN áfanga, fagkennurum og annars starfsfólks út skólagönguna en þá sér í lagi fyrstu dagana.

Hafi nemandi óskað eftir mentor innan skólans skal reynt að koma til móts við þá beiðni strax í skólabyrjun.

3.2 Íslenska sem annað mál (ÍSAN)

Nemendur með íslensku sem annað mál eru flest skráð í ÍSAN áfanga (stytting á íslenska sem annað mál). ÍSAN kennsla fer fram á spönnum, (yfirleitt aðra hvora spönn), eins og aðrir áfangar. Jafnframt þarf nemandinn að sinna almennu íslenskunámi sem gengur út á lestur, áhorf, hlustun og samskipti, þ.e. að vera virkur og taka þátt í íslensku samfélagi.

Í ME er íslenska sem annað mál kennt á þremur þrepum og er kennslan í grunninn einstaklingsmiðuð eftir þörfum hvers og eins nemanda. Nemendum er raðað í áfanga út frá móttökuviðtali og út frá upplýsingum af skilafundum (ef nemandi hefur stundað nám í íslenskum grunnskóla). Í einhverjum tilvikum fer nemandinn/hefur nemandinn farið í gegnum stöðumat.

Frekari útlistun á efnis- og hæfniþáttum má finna í áfangalýsingum á vefsíðu ME.

3.3 Nám og mat á móðurmáli

3.3.1 Móðurmálskennsla

ME býður ekki upp á nám í móðurmáli utan íslensku. Til viðbótar við íslensku er enska, danska, spænska og þýska kennd við skólann. Ef möguleiki er á og nemandi hefur þörf og áhuga á, er leitast við að aðstoða viðkomandi við að athuga hvort í boði sé að stunda nám í móðurmáli viðkomandi í fjarnámi. ME er ekki ábyrgur fyrir slíku námi en leitast við að aðstoða nemendur eftir fremsta megni við að afla sér þekkingar í eigin móðurmáli. Nemandinn getur þá samið um að fá námið í móðurmáli sínu metið inn á braut í ME.

3.3.2 Mat á móðurmáli

Framhaldsskólum er heimilt að meta móðurmál nemenda til eininga í frjálsu vali eða í stað annars erlends tungumáls. Hægt er að fá móðurmál metið til allt að 15 eininga á 1. þrepi. Í einhverjum tilfellum þar að auki til 5 eininga á 2. þrepi. Nemandi getur þá nýtt þær einingar í stað norðurlandamáls, 3. tungumáls til stúdentsprófs eða inn í val.

3.3.3 Undanþága frá norðurlandamáli

Skoða þarf undanþágu frá dönsku/norðurlandamáli. Sjá nánar hér

3.3.4 Einstaklingsnámsskrár

Námið í ME er skipulagt í samræmi við áhugasvið, hæfni og getu nemandans hverju sinni og veittur stuðningur í námsgreinum eftir þörfum. Í viðtölum eru nemendur aðstoðaðir við að velja áfanga út frá hæfni og áhuga þar til þeir eru skráðir inn á stúdentsbrautir.

3.4 Verkefnatímar - heimanám

Í ME fer um 40% kennslu hvers áfanga fram í verkefnatímum. Nemandi hittir því hvern fagkennara 1x á dag í 55 mínútur. Restin af stundartöflunni samanstendur af verkefnatímum þar sem nemendur vinna sjálfstætt að sínum verkefnum með stuðningi kennara ef viðkomandi óskar eftir. Þar að auki er leitast við að nemendur með annað móðurmál séu skráð í verkefnatíma hjá ÍSAN kennara allar spannir.

3.5 Mentor - jafningjastuðningur

Reynt er eftir fremsta megni að útvega mentor (jafningi úr röðum nemenda) fyrir þá nemendur sem á því þurfa að halda. Aðkoma mentors getur falist í:

  • Félagslegum stuðningi s.s. aðstoða nemanda við að kynnast og taka virkan þátt í félagslífi skólans, víkka tengslanet og stuðla að virkni.
  • Námslegum stuðningi s.s. aðstoð við að komast inn í námskerfi skólans, aðstoð við nám og/eða tungumál

Mentorar verja tíma með nemandanum innan skólans eða utan eftir hentisemi beggja aðila. Þeir fylgja nemanum á viðburði á vegum nemendafélagsins í samráði við nemann, sinna námsaðstoð og eru almennt til taks og bjóða aðstoð af fyrra bragði.

Hægt er að fá verkefnið metið til 1 einingar ef samvinnan nær 20 klukkustunda vinnu og nemendur skila inn sameiginlegri skýrslu. Nánari upplýsingar um verkefnið má nálgast hjá nemendaþjónustu skólans.

3.6 Nemendaþjónusta og stuðningur við nám 

Allir nemendur hafa aðgang að Nemendaþjónustu ME og þeirri þjónustu sem þar er í boði. Má þar nefna að nemendur með annað móðurmál en íslensku eiga, eftir atvikum, til að mynda rétt á sértækum úrræðum í námi og námsmati s.s. eins og að nýta tölvu við verkefnavinnu og próftöku, upplestur á prófum o.fl. Lögð er áhersla á að nemendur nýti sér tæknilausnir í viðfangsefnum annarra áfanga til að auka skilning og þekkingu. Hægt er að kynna sér nemendaþjónustu skólans hér.

4 Stöðumat og eftirfylgni

Um miðbik haustannar/vorannar - á spannarskilum, skal taka stöðu á gengi nemenda með annað móðumál en íslensku varðandi námslega stöðu, almenna líðan og félagslega aðlögun í skólanum. Ef þurfa þykir eru nemandi og foreldrar/forráðamenn boðaðir á fund og farið yfir möguleg úrræði og ný markmið sett. Foreldrar/forráðamenn geta auk þess alltaf haft samband við fagkennara nemandans sem og Nemendaþjónustu ME og óskað eftir frekari viðtölum og stuðningi.

5 Gagnlegar vefsíður

 

Menntaskólinn á Egilsstöðum
júní 2023Mótttökuáætlun nýnema

Áætlun þessi gildir um nýnema sem eru að hefja nám í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Sérstök áætlun gildir um nýnema og aðra nemendur af erlendum uppruna. Áætlun þessi tekur mið af skólanámskrá Menntaskólans á Egilsstöðum og verklagsreglum Nemendaþjónustu ME.

Úr grunnskóla í framhaldsskóla

Á hverju vori eru haldnir skilafundir milli Menntaskólans á Egilsstöðum og grunnskóla á Austurlandi (og úr þeim skólum sem á við) þar sem fengnar eru upplýsingar um nemendur sem hyggjast sækja nám við ME. Farið er yfir námslega stöðu, félagslegar aðstæður, líðan og hvað annað sem kann að hafa áhrif á skólagöngu nemandans. Nýnemar og forráðamenn eru hvattir til að flytja öll þau gögn frá grunnskólanum (sbr. greiningar o.fl.) sem nýst gætu nemandanum til frekara náms, til Nemendaþjónustu ME.

Innritun á starfsbrautir

Innritun inn á starfsbraut fer fram í febrúar ár hvert. Umsóknum þurfa að fylgja viðurkennd greiningargögn. Eftir að skólanum hefur borist umsókn hefur kennslustjóri starfsbrautar, í samráði við Nemendaþjónustu ME, samband við forráðafólk nemenda og því ásamt nemanda boðið á fund þar sem farið er yfir skólagönguna og í hverju sérþarfir liggja. Nemendum stendur til boða að koma í heimsóknir í skólann og fylgjast með daglegu starfi. Útbúin er tilfærsluáætlun sem unnin er hvort tveggja af umsjónarkennara úr grunnskóla og forráðafólki í samstarfi við nemendur. Nám á starfsbraut er einstaklingsmiðað. Nemendur geta útskrifast af hvaða braut sem er, allt eftir áhugasviði og getu. Í fjögur ár geta nemendur á starfsbraut notið stuðnings við að ljúka sínu námi. Meðan á námstíma stendur er áhersla lögð á reglulegt og gott samstarf við forráðafólk nemenda.

Innritun á framhaldsskólabrautir

Forinnritun fyrir tilvonandi nýnema á framhaldsskóla- og stúdentsbrautir skólans fara fram frá mars og fram í apríl ár hvert. Strax að hausti er öllum nemendum sem innritast hafa inná Framhaldsskólabraut 1 boðið, ásamt forráðafólki, í móttökuviðtal. Nemendaþjónusta skólans auk kennslustjóra framhaldsskólabrautar, sjá um að skipulag viðtalanna. Í viðtölunum er farið yfir bakgrunn nemandans, styrkleika hans og veikleika, framtíðarsýn og hvaða aðferðir og leiðir hafa virkað vel fyrir hann í námi hingað til. Nemandi og foreldrar/forráðafólk fá auk þess upplýsingar um skólastarfið, skólasóknarreglur, umsjónarkerfi skólans, Nemendaþjónustu ME og úrræði sem þar er boðið upp á, félaglíf nemenda og annað sem getur gagnast bæði nemanda og foreldrum/forráðafólki. Kennslustjóri framhaldsskólabrautar er til stuðnings fyrir nemendur eftir þörfum. Á hvorri önn eru nemendur framhaldsskólabrautar aftur boðaðir í viðtal með kennslustjóra og náms- og starfsráðgjafa þar sem staðan er tekin.

Innritun á stúdentsbrautir

Forinnritun fyrir tilvonandi nýnema á framhaldsskóla- og stúdentsbrautir skólans fara fram frá mars og fram í apríl ár hvert. Nýnemum sem innritast hafa á stúdentsbrautir ME er boðið í móttökuviðtöl ef þurfa þykir samkvæmt upplýsingum af skilafundum grunnskóla og/eða innritunargögnum. Náms- og starfsráðgjafar skipuleggja viðtöl með nemendum með dyslexíu/lestrarörðugleika og ADHD/einbeitingarörðugleika í viðtölum strax við skólabyrjun sem og félagsráðgjafi hittir nemendur sem glímt hafa við tilfinningalegar- og félagslegar áskoranir. Foreldrar eru upplýstir um viðtalið og þeim boðið að sitja viðtalið ef þeir kjósa svo. Farið er yfir framboð úrræða á vegum nemendaþjónustunnar og aðrar leiðir sem nýst gætu hverjum og einum. Tveimur til þremur vikum seinna er viðtölum fylgt eftir með tölvupósti.

Úrræði nemendaþjónustu ME

Allir nemendur skólans hafa aðgang að nemendaþjónustu ME og þeirri þjónustu sem þar er í boði. Foreldrar/forráðamenn geta auk þess alltaf haft samband við umsjónarkennara nemandans sem og beint við nemendaþjónustu ME og óskað eftir frekari viðtölum og stuðningi. Sjá frekar í verklagsreglum nemendaþjónustu.
Þau hópúrræði og örnámskeið sem m.a. annars verða í boði skólaárið 2020-2021 eru eftirfarandi:

nemthjon