Námsmat

Stefna Menntaskólans á Egilsstöðum um námsmat
Í Menntaskólanum á Egilsstöðum er lögð áhersla á að námsmat sé fjölbreytt og reyni á þekkingu, leikni og hæfni. Það byggir á margvíslegum námsmatsaðferðum og á að fela í sér traustar heimildir um hæfni nemenda. Námsmatið á að taka til allra þátta námsins þannig að þekking, leikni og hæfni nemandans auk framfara séu metin. Námsmatsaðferðir geta verið verklegar, munnlegar eða skriflegar, falið í sér jafningjamat, sjálfsmat, símat og lokamat.
Námsmatið hefur tvíþættan tilgang. Annars vegar að meta árangur náms þannig að nemandinn, kennarinn og skólinn viti hvernig gengur að ná settum markmiðum. Hins vegar er það leiðsagnarmat sem leiðbeinir nemendum á uppbyggilegan hátt um hvernig þeir geti bætt frammistöðu sína. Mikilvægt er að námsmatið endurspegli þau markmið sem sett eru í náminu og það sé áreiðanlegt, réttmætt og sanngjarnt.

 • lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat í samræmi við fjölbreytta kennsluhætti
 • lögð er áhersla á leiðsagnarmat
 • lögð er áhersla á verkefnamiðað nám og því verkefnamiðað námsmat
 • vægi lokaprófs er ekki meira en 50%. Lokapróf sker úr um hvort nemandi hefur staðist áfangann enda komi það fram í kennsluáætlun
 • skólinn leggur sig fram um að mæta þörfum nemenda um sérrúræði í prófum
 • gert er ráð fyrir að nemandi vinni öll verkefni og fylgi þeim kröfum sem settar eru fram í kennsluáætlun
 • aðferðir og tilhögun námsmats eru tilgreind í kennsluáætlun sérhvers áfanga. Samþykki allra nemenda þarf til að breyta námsmatshluta kennsluáætlunar.

Nemendur sem skilað hafa inn staðfestingu á greiningu til nemendaþjónustu vegna afmarkaðra námserfiðleika, athyglisbrests með eða án ofvirkni (ADHD), sálfélagslegra örðugleika, fatlana eða heilsufarslegra vandkvæða geta sótt um sérúrræði í prófum.

Einkunnastigi
10 95-100% markmiða náð 7 65-74% markmiða náð 4 35-44% markmiða náð 1 0-14% markmiða náð
9 85-94% markmiða náð 6 55-64% markmiða náð 3 25-34% markmiða náð M Metinn áfangi
8 75-84% markmiða náð 5 45-54% markmiða náð 2 15-24% markmiða náð S Staðið án einkunnar

 

Verkefnaskil

Upplýsingar um verkefni og skil þeirra eru í kennsluáætlun áfangans. Kynnið ykkur skipulag áfangans, verkefnaskil og námsmat í kennsluáætlun. Nám í spannarkerfi krefst aga hjá nemendum og verkefni eru tíð. Í skólanum er lögð áhersla á leiðsagnarmat sem miðar að því að nemandi og kennari fylgjast með og fara yfir stöðuna meðan á námi stendur og nota niðurstöðurnar til að gera nauðsynlegar breytingar á náms- og kennsluháttum.

Hvatt er til þess að nemandi hafi samband við viðkomandi kennara til að fá nánari upplýsingar um verkefnaskil.

Miðspannarmat

Um miðja hverja spönn fá nemendur miðspannarmat, en það er óformlegt námsmat sem byggir á verkefnaskilum og frammistöðu í kennslustundum. Matið gefur nemendum og forráðamönnum vísbendingu um stöðu nemandans í náminu. Matið er gefið í bókstöfum, A, B, C og 0. Miðspannarmat er einungis stöðumat en hefur ekki áhrif á lokaeinkunn í áfanganum.

Hægt er að skoða miðspannarmatið á Innu undir Námið - einkunnir - miðspannarmat. 

Námsmatsdagar

Í hverjum áfanga er kennsluáætlun birt á kennsluvef. Þar kemur fram námsefni, lýsing á yfirferð efnis á önninni, verkefni og námsmat.

Námsmatsdagar eru í lok hverrar spannar þar sem beitt er fjölbreyttu námsmati. Þá er ekki hefðbundin kennsla samkvæmt stundatöflu en nemendur hitta sína kennara á ákveðnum tímum sem eru helgaðir námsmati áfangans. Síðasti námsmatsdagur er einnig nýttur til sjúkraprófa ef þarf. Kennarar geta kallað nemendur inn til viðtals eða nemendur leitað aðstoðar hjá þeim varðandi verkefni á námsmatsdögum. Upplýsingar um dagsetningar námsmatsdaga má sjá á skóladagatali.

Próftökureglur

 1. Nemendur skulu mæta stundvíslega til prófs. Þeir skulu áður hafa kynnt sér auglýsingar er sýna hvar þeim er ætlaður staður í prófinu.
 2. Hafi nemandi bækur, önnur gögn eða farangur meðferðis í próf skal skilja hann eftir á kennaraborði eða þar sem yfirsetukennarar ákveða.
 3. Nemendur skulu hafa skriffæri með sér í próf, en skólinn leggur til pappír. Þurfi þeir á öðrum tækjum að halda, t.d. vasareikni eða orðabókum, skuli þeir sjálfir hafa þau meðferðis. Ekki er heimilt að skiptast á um að nota þessi tæki nema með leyfi yfirsetukennara.
 4. Nemendum er óheimilt að aðstoða eða þiggja aðstoð frá öðrum í prófi. Farsímar eru algjörlega bannaðir á prófstað. Þeim er einnig óheimilt að nota önnur hjálpargögn en þau sem sérstaklega eru leyfð hverju sinni. Brot á þessari reglu veldur tafarlausri brottvísun og einkunninni 1 fyrir prófið.
 5. Próftími er afmarkaður, að jafnaði 120 mínútur. Þó er reiknað með að flestir nemendur geti lokið við prófin á 90 mínútum. Nemandi sem kemur of seint til prófs fær ekki framlengdan tíma, heldur skerðist próftími hans sem töfinni nemur. Ekki er heimilt að skila úrlausn fyrr en 30 mínútur eru liðnar af próftíma og eftir þann tíma fær enginn að hefja próftöku. Nemendur skulu skila öllum prófgögnum til yfirsetukennara.
 6. Nemandi sem ekki getur mætt til próftöku vegna veikinda skal tilkynna forföll samdægurs. Hann skal staðfesta veikindi með vottorði innan þriggja daga til að fá að gangast undir sjúkrapróf. Athugið að sækja þarf skriflega um að taka sjúkrapróf. Eyðublöð liggja frammi hjá skrifstofu.

Nemendur sem skilað hafa inn staðfestingu á greiningu til nemendaþjónustu vegna afmarkaðra námserfiðleika, athyglisbrests með eða án ofvirkni (ADHD), sálfélagslegra örðugleika, fatlana eða heilsufarslegra vandkvæða geta sótt um sérúrræði í prófum. Auglýsing um sérúrræði í prófum eru auglýst á hverri spönn í aðdraganda námsmatsdaga.

Endurupptaka áfanga

Til að standast áfanga og fá leyfi til að hefja nám í þeim næsta þarf lágmarkseinkunnina 5. Nemanda er heimilt að útskrifast með einkunnina 4 í tveimur áföngum ef um lokaáfanga eða stakan áfanga er að ræða. Þessir áfangar gefa ekki einingar. Nemandi þarf samt sem áður að ljúka tilskildum einingafjölda samkvæmt brautarlýsingu.

Nemanda er heimilt að þreyta sama áfanga þrívegis.

Ef fall í einum áfanga á lokaönn kemur í veg fyrir að nemandi geti útskrifast með lokaprófi skal leyfa honum, í samkomulagi við kennara, að taka upp námsþætti í þeim áfanga í lok sömu annar. Gjald er tekið fyrir endurtekt námsþátta samkvæmt gjaldskrá skólans hverju sinni.