Þróunarverkefni ME

Í ME er unnið að nokkrum þróunarverkefnum á hverju skólaári. Þau eru misstór að efni og umfangi, sum tengjast einstökum kennslugreinum en önnur eru umfangsmikil verkefni sem ná yfir allt skólastarfið. Hér er greint frá stærstu verkefnum síðustu skólaára.

Grunnþættir menntunar: Á skólaárunum 2021-2023 verður unnið að því að efla hlut grunnþátta menntunar í námi og skólastarfinu í heild og gera þá sýnilegri. Grunnþættirnir eru læsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð og sköpun. Með grunnþáttunum er lögð áhersla á að rækta með markvissum hætti þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir einstaklinga í framtíðinni til að vera gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Markmiðið er meðal annars að auka þekkingu á grunnþáttunum, efla öryggi í beitingu þeirra, færa þá inn í kennslu nútímans og gera bæði nemendur og kennara meira meðvitaða um þá.

Námsvefurinn Canvas: Á vorönn 2020 hófst innleiðing á nýjum námsvef, Canvas, sem er alhliða námsvefur sem auðveldar samskipti kennara og nemenda og greiðir boðleiðir og upplýsingar um allt sem tengist náminu. Frá því á haustönn 2020 fer allt nám fram í gegnum Canvas.

Enduskoðun brauta og kjarna: Skólaárið 2019-2020 var innihald brauta og kjarnaáfanga endurskoðað auk þess sem kennarar endurskoðuðu þá áfanga sem þeir kenndu og aðlöguðu að þörfum samfélagsins. Opin braut var samþykkt og byrjað að skrá inn á hana á haustönn 2020, tæknilína var sett í framboð og málalína í stað málabrautar sem var lögð niður vegna dræmrar eftirspurnar.

Leiðsagnarmat: Á skólaárunum 2015-2018 fór fram markviss þróun og innleiðing á leiðsagnarmati sem byggist á því að leiðbeina nemendum á uppbyggilegan hátt um hvernig þeir geta bætt frammistöðu sína, íhugað eigin framfarir og metið nám sitt og vinnubrögð. Kennarar veita endurgjöf reglulega sem styðja á og efla hæfni nemenda til að takast á við námið.