Lykilupplýsingar fyrir nýnema

Á vorin opnast fyrir umsóknir í ME í gegn um vef Menntamálastofnunar. Þar er einnig hægt að sækja um heimavist við skólann. Nánari upplýsingar um skólann, námið og fyrirkomulag náms má finna hér á heimasíðunni. Allar nauðsynlegar upplýsingar fyrir nýnema eru hér að neðan. Einnig má alltaf hafa samband við skólann í leit að upplýsingum.

Skóladagatal 2024-2025

Skólasetning haustannar

Fyrsti skóladagur er helgaður nýnemum . Dagskrá nýnemadags verður send út nokkrum dögum fyrir skólabyrjun. Nýnemar skulu koma með tölvur sínar og tæki á þessum degi þar sem þeir fá aðstoð við að komast í samband við menntaskýið og skrá sig inn í hin mismunandi kerfi skólans. Þannig verður einfaldara að hefja störf að morgni annars skóladags þar sem allir nemendur skólans mæta til leiks.

Nýnemar skulu hafa meðferðis upplýsingar um notandanafn sitt, skólanetfang og lykilorð sem þeir fá sendar frá tölvudeild fyrir skólabyrjun.

Kynningarfundur fyrir foreldra/forráðamenn nýnema er haldinn fjótlega eftir að skóli hefst.

Markmiðið með honum er að kynna námið í skólanum og margs konar starf sem ætlað er að styðja við nemendur á fyrsta ári. Nemendur þurfa einnig á stuðningi og hvatningu foreldra að halda og þann stuðning er auðveldara að veita þegar nokkur þekking á skólanum og starfi hans er fyrir hendi.

Skóladagatal er á vef skólans.

Foreldra- og hollvinafélag ME

Við skólann er starfandi foreldrafélag. Aðalfundur foreldrafélagsins er haldinn að hausti og er boðað til hans sérstaklega. Á aðalfundi er kosið í nýja stjórn. Stjórnin fundar reglulega yfir skólaárið og er skólameistari tengiliður skólans við félagið.

Félagslíf nemenda – NME

Nemendafélag Menntaskólans á Egilsstöðum (NME) er hagsmunafélag nemenda og stendur fyrir ýmsum viðburðum. Því er stýrt af nemendaráði og í því sitja formaður, varaformaður, fjármálastjóri, skemmtanastjóri, meðstjórnandi, pésastýra, formaður tónlistarráðs ME, formaður málfundafélags ME, formaður íþróttafélags ME og fulltrúi nýnema.

NME á tvo fulltrúa í skólaráði sem er skólameistara til samráðs og aðstoðar.

Ýmsir stórir viðburðir eru haldnir á vegum NME á hverju skólaári en þar má helst nefna 1. des, sem er árshátíð nemenda, og Barkann, söngkeppni nemenda. Einnig eru smærri uppákomur í boði svo sem kvikmyndakvöld, íþróttaviðburðir og tónleikar.

Lýðræðislegar kosningar eru haldnar í lok hverrar vorannar þar sem kosið er í allar stöður NME fyrir næsta skólaár.

Allir nemendur geta boðið fram krafta sína í öflugt félagsstarf.

Skólinn og húsnæðið

Heimilisfang skólans er Tjarnarbraut 25 á Egilsstöðum. Skólinn samanstendur af tveimur byggingum.

Kennsla fer að mestu fram í kennsluhúsi skólans en heimavistir, mötuneyti, tæknismiðja og félagsaðstaða nemenda eru í heimavistarhúsi sem stendur fáum metrum norðan kennslubyggingarinnar. Íþróttir eru kenndar í íþróttahúsi sem stendur austan Tjarnarbrautar gegnt skólahúsum.

Aðalinngangar kennslu- og heimavistarhúss eru nokkurn veginn hvor gegnt öðrum. Á austurgafli kennsluhúss er inngangur starfsmanna á efri hæð en inngangur nemenda (bakdyr) á neðri hæð. Inngangur í mötuneyti ME er á austurgafli vestur-austur álmu heimavistarhúss.

Á heimavist skólans eru fjórir gangar með 52 herbergjum. 39 herbergi eru 2ja manna (16 fermetra) og 13 herbergi 3ja manna á tveimur hæðum (30 fermetra). Alls er pláss fyrir 117 íbúa á heimavist ME. Herbergin eru vel útbúin með salerni og sturtu á hverju herbergi og nýverið var skipt um flesta innanstokksmuni svo sem rúm, náttborð og stóla.

Aðgengi hreyfihamlaðs fólks að húsakosti skólans er gott. Lyftur eru í kennsluhúsi og í heimavistarhúsi auk þess sem salerni fyrir hreyfihamlaða eru í báðum húsum. Eitt vistarherbergi heimavistarhúss er sérstaklega útbúið fyrir hreyfihamlaða. Bílastæði fyrir hreyfihamlaða er á milli kennslu- og heimavistarhúss og annað við inngang nemenda á neðri hæð kennsluhúss. Við Menntaskólann er rúmgott bílastæði og gott aðgengi í alla staði fyrir nemendur og starfsfólk. Sömuleiðis er aðstaða fyrir um 50 reíðhjól við skólahúsnæðið, þar af nokkur undir þaki.

Þjónusta

Afgreiðsla skólans er opin alla virka daga frá kl. 08:00-12:00. Sími í afgreiðslu er 471 2500 og netfang skólans er skrifstofa@me.is. Í Innu má sjá að morgni hvort kennsla fellur niður í einhverjum greinum þann dag.

Nemendur eru hvattir til að nýta sér bókasafn skólans, bæði safnkost, þjónustu og aðstöðu. Á bókasafninu, sem nú er flutt á fyrstu hæð kennsluhúss skólans, eru lesbásar sem nýta má á milli tíma eða eftir skóla. Þar er einnig hægt að skanna og ljósrita. Umsjónarmaður bókasafns aðstoðar nemendur við öflun heimilda og kynnir nýnemendum safnið í upphafi annar. Flestar kennslustofur standa nemendum líka opnar utan kennslustunda þar til að húsum skólans er lokað.

Læstir skápar

Um 50 nemendaskápar eru á neðri hæð kennsluhúss. Þeir eru með innstungum og útbúnir með læsingu með hengilás sem nemendur geta keypt.

Heimavist og mötuneyti

Við Menntaskólann á Egilsstöðum eru starfrækt heimavist og mötuneyti. Skólinn leggur áherslu á að nemendum og starfsmönnum bjóðist fjölbreytt og hollt fæði í mötuneytinu þar sem farið er eftir ráðleggingum Landlæknisembættisins við val á hráefni og samsetningu matseðla.

Heimavist ME skal vera traust og öruggt heimili fyrir þá nemendur sem þar dvelja og aðstaða ávallt vera eins góð og kostur er. Vakt er í húsinu frá kl. 20:30-00:30 alla virka daga og heimavistarbúar eru með raflykil að útidyrum til frekara öryggis og þæginda. Á haustönn 2021 verður kostnaður vegna heimavistar 20.000 kr. á mánuði ef tveir eru saman í herbergi en 35.000 kr. fyrir einmenni. Það gera kr 80.000 kr. á haustönn fyrir tvímenni en 140.000 kr fyrir einmenni. Nemendur geta sótt um endurgreiðslu vegna húsnæðis hjá sínu sveitarfélagi upp á helming þess kostnaðar.

Kostnaður vegna mötuneytis á haustönn 2023 verður kr 230.000.

Heimavistar - og mötuneytiskostnaður nemenda er innheimtur í fjórum greiðslum á bæði haust og vorönnum. 

Nettókostnaður heimavistarnemanda í tvímenni fyrir haustönn 2023 sem sækir um og fær dvalarstyrk gegnum menntasjóð og húsaleigustyrk frá heimasveitarfélagi er því 75.000 kr. fyrir fæði og húsnæði í fjóra mánuði eða um 20.000 kr. á mánuði.

Nemendur undir 18 ára eru minntir á að sækja um húsaleigustyrk í sínu sveitarfélagi fyrir haustönn 2022.

Múlaþing: Foreldrar/forráðafólk þarf að sækja um fyrir nemann í gegnum íbúagátt Fjarðabyggðar á vefsíðunni þeirra með rafrænum skilríkjum hér.

Fjarðabyggð: Foreldrar/forráðafólk þarf að sækja um fyrir nemann í gegnum íbúagátt Fjarðabyggðar á vefsíðunni þeirra með rafrænum skilríkjum hér. Þar á að vera hægt að finna eyðablöð undir félagsþjónustusviði sem eru merkt „húsnæðisbætur 15-16-17 ára". Eyðublaðinu er síðan skilað rafrænt inn auk húsaleigusamningsins sem var gerður við skólann í upphafi vistar.

Nemendur eldri en 18 ára skulu sækja um á www.husbot.is.

 

Sótt er um á heimavist þegar sótt er um skólavist.

Mötuneytiskostnaður haust 2023

 

Jöfnunarstyrkur

Jöfnunarstyrkur (áður dreifbýlisstyrkur) er námsstyrkur fyrir nemendur sem stunda nám á framhaldsskólastigi fjarri lögheimili og fjölskyldu. Fjarnám er ekki styrkhæft. Dreifnám er aðeins styrkhæft ef nemendur þurfa að koma í skólann að minnsta kosti 50% af dagafjölda nemenda sem stunda dagskóla. Lögheimili má ekki vera í nágrenni við skóla. Námið verður að vera að lágmarki eins árs skipulagt nám við skóla sem fellur undir lög um framhaldsskóla/menntaskóla. Styrkurinn skiptist í akstursstyrk og dvalarstyrk. Sjá nánar á www.menntasjodur.is

Akstursstyrkur er ætlaður þeim nemendum sem sækja skólann frá lögheimili, það er keyra daglega í skólann frá lögheimili sínu. Einnig er hann fyrir þá sem búa ekki í foreldrahúsum en geta ekki sýnt fram á leigugreiðslur. Styrkupphæð akstursstyrks fyrir skólaárið 2022 - 23 er kr 107.000.

Dvalarstyrkur er fyrir þá nemendur sem flytja að minnsta kosti 30 km frá lögheimili sínu og fjölskyldu til að geta stundað nám, það er þeir sem eru á heimavist og/eða greiða leigu. Styrkupphæð dvalarsstyrks fyrir skólaárið 2022 - 23 var kr 195.000.

 

 

 

Tölvur og upplýsingatækni

Í ME er mikil áhersla lögð á verkefnabundið og tölvustutt nám í öllum áföngum og því er mælst til þess að nýnemar hafi tiltækar fartölvur sem geta nýst við námið. Allir nemendur fá eigið ME-netfang (@me.is) og er ætlast til að þeir skoði póstinn sinn mjög reglulega. ME-netfangið er nauðsynlegt nemendum við skráningu inn í tölvuþjónustur skólans, svo sem Office 365 sem innifelur ókeypis aðgang að öllum forritapakka Office 365, kennsluumhverfið Canvas þar sem kennarar halda utan um námsefni og verkefni.

Netföng og aðgangsorð

Upplýsingar um netfang og aðgangsorð verða sendar nýnemum og forráðamönnum þeirra á netföngin sem skráð eru í Innu. Einnig fylgja upplýsingar um aðgang að þráðlausa netinu ME-nemendur. Nemendur verða að sjálfsögðu að halda vel utan um lykilorðin sín og deila þeim alls ekki með öðrum en forráðamönnum.

Office365 (ME-Menntaskýið)

ME er með leyfissamning við Microsoft um aðgengi nemenda og starfsmanna að Office 365. Nemendur skólans þurfa að vera með rafræn skilríki. Krafist er tveggja þátta auðkenningar, með kóða í síma eða gegnum app til að nýta sér þennan hugbúnað.

Allir nemendur fá ME-netfang sem er þeirra notandanafn inn á Office 365 gátt skólans. Þetta er í daglegu tali kallað ME-skýið. Í gegnum ME-skýið hafa nemendur aðgang að Office forritunum (Word-ritvinnsla, Excel-töflureiknir og Outlook-póstforrit og Teams-fundarforrit eru þekktust). Einnig er í boði önnur þjónusta, til dæmis OneDrive sem er 1TB einkagagnageymsla í skýinu.
Dagskólanemar fá fulla útgáfu að Office-pakkanum. Fjarnemar fá vefútgáfu (online) af Office-forritunum í gegnum ME-netfangið. Munurinn á fullri útgáfu og vefútgáfu er sá að full útgáfa gefur leyfi á að hlaða forritunum niður og vinna í þeim á tölvunni. Í vefútgáfunni vinnur nemandi í skýinu og vistar skjölin sín á OneDrive (gagnageymsluna í skýinu) og getur þaðan hlaðið skjölunum niður á tölvuna og skilað inn á Canvas kennslukerfið.

Þetta fyrirkomulag gerir öll tölvusamskipti milli notenda tölvukerfisins mun einfaldari því nú geta allir deilt með sér skjölum og jafnvel unnið samtímis í þeim án þess að upp komi árekstrar. Skjalavinnsla gegnum snjalltæki er nú sömuleiðis orðin mjög þægileg. Þetta verður nánar kynnt fyrir nemendum í skólabyrjun.
Hlekkur inn á ME-skýið https://www.office.com

ME-netfangið þitt getur þú nálgast í Innu.

Þráðlaust net

ME er öflugt þráðlaust net og gildir sama auðkenning fyrir það og Office 365. Hver nemandi ber fulla ábyrgð á þeirri netumferð sem fer fram í þeirra nafni.

Nemendur eru minntir á að þeim ber að tryggja það eftir bestu getu að fartölvur þeirra og tæki séu vel vírusvarin og smiti ekki út frá sér á neti skólans. Á þráðlausa netinu í ME njóta fartölvur forgangs og fá hraðara netsamband en snjalltæki eins og símar og spjaldtölvur. Nánari upplýsingar um tölvunotkun berast nemendum síðar í tölvupósti og í reglum skólans um tölvunotkun.

Inna

Inna er gagnagrunnur framhaldsskóla á Íslandi. Þangað sækja nemendur og forráðamenn ólögráða nemenda stundatöflur, mætingu, einkunnir og námsferil. Foreldrar nota Innu meðal annars ef þeir þurfa að tilkynna veikindi barna sinna.

Til að skrá sig í Innu þarf Íslykil eða rafræn skilríki. Einfaldast er að fá Íslykil sendan í heimabanka eða sækja rafræn skilríki, hjá símafélagi eða í viðskiptabanka. Áríðandi er að hafa með sér vegabréf eða ökuskírteini ef sækja á rafræn skilríki. Forráðamenn þurfa að veita samþykki, þeir geta farið með í bankann eða veitt samþykki á mitt.audkenni.is 
Athugið að ef skipt er um símafélag og/eða símakort þarf að virkja rafræn skilríki aftur.

Foreldrar geta líka sótt um aðgang að Innu á https://www.inna.is/Nemendur/ með því að panta nýtt lykilorð. Þá fá þeir sent lykilorð á það netfang sem er skráð í Innu.

Þegar nemandi verður 18 ára lokast aðgangur aðstandenda að Innu. Nemandi getur opnað aðganginn aftur fyrir aðstandendur.

Nemendur og aðstandendur geta breytt persónuupplýsingum s.s. netfangi, símanúmeri og greiðslustillingum í Innu. Einnig er hægt að hafa samband við skólann og biðja um að breyta stillingum ef aðstæður hafa frá því að umsókn var skráð.

Á vef ME er hægt að kynna sér ýmislegt tengt námskránni, námsferla, markmið og annað tengt náminu.

Canvas námsvefurinn

Canvas er alhliða námsvefur sem gefur kennnurum og nemendum auðvelda leið til þess að eiga í samskiptum um allt sem tengist náminu. ME er í dag eini framhaldsskóli landsins sem nýtir sér Canvas en nær allir háskólar landsins nota þetta kerfi sem er bæði fullkomið og ekki síður mjög notendavænt bæði gegnum tölvu og farsíma

Nemendur í Canvas geta sótt allt það efni sem kennarar miðla til nemanda inni á sama svæði

Nemendur geta á forsíðu séð yfirlit yfir þá áfanga sem þeir eru skráðir í, þau verkefni sem eru næst á dagskrá, þá tíma sem eru á döfinni og þau verkefni sem hafa fengið einkunn nýlega. Inni í hverjum áfanga getur nemandi svo séð yfirlit yfir verkefni, umræðuþræði áfanga, kennsluáætlun, fyrirlestra og fleira. Nemandi getur valið einstaka verkefni og sent inn lausn sem kennari getur svo farið yfir og gefið einkunn fyrir. Nemendur geta einnig skráð sig saman í hópa og átt í umræðum innan hópsins og skilað verkefnum saman.

Hlekkur á Leiðbeiningar

Algengar Canvas spurningar nemenda

Prentun

Nemendur geta prentað út á prentara staðsettum í bókasafni skólans á neðri hæð kennsluhúss.

Reglur um tölvunotkun

Tölvur og snjalltæki geta verið mjög gagnleg við nám en reynslan er sú að notkun þeirra fylgir oft ónæði. Þetta á sérstaklega við um síma og önnur snjalltæki. Facebook og aðrir samskiptamiðlar, leikir, ómarkvisst flakk á netinu og annað þess háttar sem ekki tilheyrir náminu á ekki við í kennslustundum. Eftirfarandi reglur gilda um tölvu- og snjalltækjanotkun í ME:

  • Einkunnarorð skólans, gleði,virðing, jafnrétti, gilda í öllu starfi skólans, einnig í allri meðferð samskiptatækja.
  • Kennarinn er verkstjóri og setur vinnureglur í kennslustundum.
  • Nemendur virða rétt félaga sinna til að stunda nám sitt ótruflaðir.
  • Tölvur, síma og önnur samskiptatæki má aðeins nota í kennslustundum ef kennari leyfir eða mælir svo fyrir.
  • Allar myndatökur og upptökur í kennslustundum eru óheimilar nema með leyfi kennara

Námið

Námsgreinar

Nemendur á fyrsta ári eru flestir í sömu námsgreinum á haustönn en gátu við innritun í skólann valið milli spænsku og þýsku. Munurinn á námsbrautum eykst síðan á vorönn á fyrsta ári og síðan enn frekar á öðru ári.

Nýnemar fara allir í gegnum tvo áfanga í lífsleikni á fyrsta ári. Þeir áfangar eru nokkurs konar heimahafnaráfangar þar sem námstækni og upplýsingatækni eru samofin allri verkefnavinnu með áherslu á samvinnu, frumkvæði og ábyrgð. Áfangarnir byggja að verulegu leyti á ferlivinnu í kennslustundum þar sem nemendur fá tækifæri til að vinna verkefni sín undir leiðsögn kennara.

Námsgögn

Hægt er að nálgast upplýsingar um bókalista á Innu og á vef skólans. Mikilvægt er að útvega sér allt námsefni strax í upphafi annar.

Nemendur sem ekki hafa lært dönsku

Ef nemendur hafa ekki lært dönsku í grunnskóla taka þeir einingar í staðinn.

Nemendur sem hafa lært norsku eða sænsku í grunnskóla geta haldið því áfram. Áfangarnir eru þó ekki kenndir í ME, heldur þarf að taka þá í fjarnámi. Áfangastjóri ME sér um skráningu í fjarnámið.

Nemendur sem þurfa aðstoð í námi

Foreldrar eru hvattir til að hafa samband við námsráðgjafa ME í upphafi skólaárs ef nemendur þurfa sérstaka aðstoð, hvort sem er í námi eða öðru. Upplýsingar um slíkt eru ekki sendar sjálfkrafa á milli skólastiga.

Tónlistariðkun

Nemendur með áhuga á tónlistariðkun hafa aðstöðu til æfingar í heimavistarhúsi og er tónlistarklúbbur Nemendafélags ME með aðsetur þar.

Nemendur sem stunda tónlistarnám geta fengið það metið sem val ef þeir eru komnir vel áleiðis í tónlistarnámi við upphaf menntaskólanáms. Varðandi frekari upplýsingar um tónlistarbraut er hægt að hafa samband við námsráðgjafa skólans.

Námsmat

Nemendur fá kennsluáætlanir í öllum áföngum (í Canvas) í upphafi spannar. Þar kemur fram námsefni, lýsing á yfirferð efnis á önninni, verkefni og námsmat. Námsmatsdagar eru í lok hverrar spannar þar sem beitt er fjölbreyttu námsmati. Mörgum áföngum lýkur án sérstaks lokaprófs og hlutaprófin eru frá 30-45%. Töluvert er um verkefni og stutt próf yfir spönnina og því er nauðsynlegt fyrir nemendur að skoða kennsluáætlanir vel í upphafi til að geta skipulagt vinnu sína á spönninni. Í öllum greinum er gert ráð fyrir námi í verkefnatímum/heimanámi og reynslan sýnir að slíkt sjálfsnám gagnast nemendum vel.

Námsmatsdagar

Skólaárinu er skipt í fjórar spannir sem hverri um sig lýkur með þremur námsmatsdögum. Þá er ekki hefðbundin kennsla samkvæmt stundatöflu en nemendur hitta sína kennara á ákveðnum tímum sem eru helgaðir námsmati áfangans. Síðasti námsmatsdagur er einnig nýttur til sjúkraprófa ef þarf. Kennarar geta kallað nemendur inn til viðtals eða nemendur leitað aðstoðar hjá þeim varðandi verkefni á námsmatsdögum. Upplýsingar um dagsetningar námsmatsdaga má sjá á skóladagatali.

Miðspannarmat

Um miðja hverja spönn fá nemendur miðspannarmat, en það er óformlegt námsmat sem byggir á verkefnaskilum og frammistöðu í kennslustundum. Matið gefur foreldrum og nemendum vísbendingu um stöðu nemandans í náminu. Matið er gefið í bókstöfum, A, B, C og 0. Miðspannarmat er einungis stöðumat en hefur ekki áhrif á lokaeinkunn í áfanganum.

Í framhaldi af miðspannarmati geta kennara og námsráðgjafar haft samband við foreldra þeirra nemenda sem taldir eru standa höllum fæti í náminu.

Námstími, þrjú ár eða lengur

Vel undirbúnir nemendur úr grunnskóla sem hefja nám á öðru þrepi í kjarnagreinum taka framhaldsskólann á þremur árum án vandkvæða en vissulega er hægt að taka námið á mislöngum tíma. Það getur til dæmis verið góður kostur að vera lengur ef nemandi stundar tímafrekar keppnisíþróttir, er í tónlistarnámi eða tímafreku félagsstarfi með fullu námi. Nám við ME krefjandi en með góðri ástundun eiga allir nemendur skólans að geta náð settum markmiðum.

Skóladagurinn í ME

Kennsla hefst klukkan 9:00 og stendur til 15:50 nema á mánudögum og föstudögum en þá lýkur kennslu klukkan 15:00. Þó geta nemendur verið í íþróttum og íþróttaakademíum (knattspyrnu og körfubolta) skólans klukkan 08:00 á morgnana. Fimleikaakademían er á forræði fimleikadeildar Hattar og þar eru æfingar eftir hefðbundinn skóladag. Tímasetningar má sjá nánar í rammastundaskrá skólans.

Skólareglur Menntaskólans á Egilsstöðum

Almennar skólareglur

Kennarar og nemendur ræki störf sín í skólanum af alúð og árvekni.
Regla og agi skulu vera í skólanum til að tryggja frið um starf hans.
Góð umgengni skal höfð í húsum skólans og á lóð hans.

Reglur um bindindi

Nemendur skólans mega ekki vera undir áhrifum áfengis eða annarra vímuvaldandi efna í skólanum eða á lóð hans né heldur á skemmtunum, samkomum eða ferðalögum sem farin eru á vegum skólans eða í nafni hans. Sé áminningu skólameistara ekki sinnt er nemanda vikið úr skóla.

Tóbakslaus skóli

Menntaskólinn á Egilsstöðum er tóbakslaus skóli. Óheimilt er að reykja, veipa eða nota annað tóbak, þar með talið munntóbak og neftóbak, í húsum skólans og á lóð hans.

Mikið er lagt upp úr því að allar skemmtanir á vegum skólans séu vímulausar, s.s. nýnemaball og árshátíð skólans.

Umgengni

Góð umgengni innan og utan skóla er einkenni nemenda Menntaskólans á Egilsstöðum. Stofur í heimavistarhúsi eru opnar nemendum til lærdóms og félagsstarfa eftir skólatíma og það hefur verið mögulegt vegna góðrar umgengni. 

Hegðun í tímum

Lögð er áhersla á að nemendur og kennarar sýni hver öðrum virðingu og tryggi í sameiningu vinnufrið og góða ástundun. Neysla matvæla er ekki heimil í kennslustofum og notkun á tölvum og annarra tækja er háð leyfi kennara. Ætlast er til að nemendur biðji um leyfi þurfi þeir nauðsynlega að fara fram meðan á kennslu stendur. Ástundun og vinnusemi í kennslustundum er forsenda góðs árangurs.

Reglur um skólasókn

Góð skólasókn er mikilvæg, ekki síst á fyrstu árunum í framhaldsskóla. Reynslan sýnir að það er sterk fylgni milli skólasóknar og námsárangurs. Öll kennsla og skipulag skólans miðast við að nemendur sæki alla tíma, þannig skapast sterkara námssamfélag og hvetjandi vinnuumhverfi. Mæting nemenda er skráð í Innu og er aðgengileg nemendum og forráðamönnum ólögráða barna. Inna sýnir annars vegar raunmætingu nemandans, það er hvaða tíma hann hefur sótt og hins vegar mætingu þegar veikindi og leyfi hafa verið dregin frá. Krafist er 90% lágmarksmætingar í tíma.

Leyfi frá skóla

Gert er ráð fyrir að nemendur sem þurfa að sinna erindum utan skóla reyni eftir föngum að gera það utan skólatíma.

Lögráða nemendur og forráðamenn ólögráða nemenda geta sótt um leyfi til skólameistara ef þeir þurfa að vera í burtu dag eða lengur. Nemendur fá skráðar fjarvistir þá daga sem þeir er í leyfi en með skýringum. Ef nemendur þurfa að sækja um leyfi í 3 daga eða lengur þurfa þeir að senda póst á skm og tilgreina ástæðu leyfis.

Skilyrði fyrir leyfisveitingu:

Nemandi mæti að öðru leyti vel í skólann.
Nemandi geri sér grein fyrir skyldum sínum og ábyrgð ef hann þarf að vera fjarverandi, meðal annars ræði við kennara fyrirfram ef leyfið lendir á verklegum tímum og verkefnaskilum.

Fjarvera sem þessi er skráð sem L (leyfi) í Innu.

Leyfi vegna íþrótta

Fjarvera afreksíþróttafólks á námstíma vegna keppnis- og/eða æfingaferða landsliðs í viðkomandi íþróttagrein reiknast ekki inn í skólasókn þeirra (afreksíþróttamaður telst sá sem valinn hefur verið í unglingalandslið eða landslið viðkomandi íþróttagreinar eða sá sem valinn hefur verið til þátttöku og/eða undirbúnings fyrir Norðurlandamót, Evrópumeistaramót, heimsmeistaramót eða Ólympíuleika i sinni íþróttagrein). Það sama gildir um nemendur sem eru í viðurkenndum ferðum á vegum skólans. Nemendur sem fara í keppnisferðir á vegum íþróttafélaga innan ÍSÍ geta fengið skráð leyfi fyrir sínum fjarvistum ef þjálfarar skila inn leyfisbeiðni. Aðeins er hægt að taka tillit til þeirra leyfa ef nemandinn mætir vel að öðru leyti.

Þessar reglur gilda einnig um nemendur sem eru í viðamiklu tónlistarnámi og nemendur sem taka þátt í keppnum fyrir hönd skólans s.s. Morfís og Gettu betur.

Leyfi vegna ofangreinda þátta eru skráð sem L (leyfi) í Innu.

Veikindi

Foreldrar nemenda undir 18 ára þurfa að skrá veikindi barna sinna samdægurs (fyrir kl. 10) í Innu. Nemendur yfir 18 ára tilkynna sjálfir veikindi. Einnig er mögulegt að senda póst á skrifstofa@me.is.

Skólinn áskilur sér rétt til að krefjast þess að vottorði sé skilað, til dæmis ef fjarvistir nemenda vegna veikinda eru tíðar.

Nemendur sem eiga við sjúkdóma að stríða eða búa við aðstæður sem geta haft áhrif á skólasókn þeirra, leggja fram gögn um slíkt í upphafi annar, og/eða þegar slíkar aðstæður koma upp, hjá félagsráðgjafa skólans. Í slíkum tilvikum er hægt að sækja um að skólasóknar verði ekki getið á námsferli.

Veikindi í prófum

Ef ekki kemur annað fram á kennsluáætlunum þarf nemandi sem er veikur þegar verkefni eða prófhluti til lokaprófs er á dagskrá að skila læknisvottorði fyrir þann dag, eigi síðar en einni viku frá því að nemandinn kemur í skólann á ný. Alltaf þarf að skila inn vottorði vegna veikinda á námsmatsdögum til að eiga rétt á sjúkraprófi.

Símat og vinnueinkunn

Að jafnaði gilda sömu reglur um skólasókn í símatsáföngum og öðrum áföngum en kennurum er heimilt að setja strangari skólasóknarreglur í kennsluáætlun áfangans enda skiptir þátttaka og viðvera nemenda miklu í slíkum áföngum.

Sérstakar reglur gilda um vægi skólasóknar í einkunn fyrir íþróttir.

Ábyrgð nemenda

Nemendum ber sjálfum að fylgjast með skólasókn sinni í Innu. Ef nemandi þarf að vera mikið frá vegna íþrótta eða leyfa ber hann ábyrgð á því að fylgjast með hvað fram fer í kennslu á þeim tíma. Það sama á við um nemendur sem eru frá vegna skammvinnra veikinda. Nemendur sem glíma við samfelld eða erfið veikindi hafa samband við félagsráðgjafa vegna umsóknar um veikindadagbók.

Dagatal

Á vef skólans má sjá dagatal skólans. Meðal viðburða á skólaárinu 2023-2024 má nefna:

Nýnemadagur mánudaginn 21. ágúst kl. 10:00-15:00.

Þar fara nýnemar  ma í gegnum tölvuumsjón og skipulag námsins í bland við samhristing.

Skólasetning að morgni þriðjudags 22. ágúst á sal skólans kl. 09:00. Nýnemamóttaka verður með ýmsum hætti fyrstu skólavikuna og endar með nýnemadansleik.

Dagatalið sýnir helstu dagsetningar skólaársins og gott fyrir nemendur að glugga í það til frekari upplýsingar um skólastarfið.

Fardagar nemenda með uppbrot í kennslu dreifast yfir haust og vorönn, í tengslum við viðburði í skólanum.

Páskafrí er frá 22. mars  til 2. apríl.

Vorútskrift ME verður þriðjudaginn 18. maí 2024.

Að lokum

Menntaskólinn á Egilsstöðum er bóknámsskóli og meginhlutverk hans er að búa nemendur undir nám á háskólastigi, auk þess að búa þá undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi. Það eru alltaf ákveðin viðbrigði fyrir nemendur að hefja nám í menntaskóla. Yfirferð er hraðari í ýmsum greinum en í grunnskóla og kröfur meiri um sjálfstæð vinnubrögð.

Nám í ME er full vinna og því brýnt að hvetja nemendur til að læra jafnt og þétt alla önnina og nýta kennslustundirnar vel. Þá er aðhald foreldra nemendum einnig mikilvægt. Góð vinnubrögð sem nemandi tileinkar sér strax á fyrstu önn nýtast honum alla skólagönguna.

 

Hlökkum til að eiga samstarf við ykkur,

starfsfólk Menntaskólans á Egilsstöðum