Verklagsreglur

1. Hlutverk og markmið nemendaþjónustu ME

Hlutverk Nemendaþjónustu ME er að leitast við að veita nemendum skólans fjölbreytta þjónustu við hæfi hvers og eins. Markmið með þjónustunni er að vinna að velferð og heill nemenda skólans og að tryggja jöfn tækifæri til náms sbr. skólanámskrá. Nemendaþjónustan sér um að veita samræmda þjónustu þar sem unnið er út frá heildarsýn í málefnum nemenda.

2. Áherslur í starfi nemendaþjónustu ME

Nemendaþjónustan vinnur að fjölþættum verkefnum en aðaláherslur í starfi liggja á eftirfarandi sviðum:

 • Að veita nemendum námslegan og persónulegan stuðning og byggja upp seiglu til að auka líkur á að allir nái að hámarka árangur sinn í námi.
 • Að aðstoða nemendur við að öðlast þá sjálfsþekkingu sem nauðsynleg er til að átta sig á hvar náms- og starfsáhugi þeirra liggur.
 • Að aðstoða nemendur við að þekkja styrkleika sínaog tileinka sér heilsusamlegan lífsstíl og líferni.
 • Samvinna við kennara um heill og hagsmuni nemenda skólans.
 • Að markviss, fjölbreytt fræðsla fari fram í námstækni þar sem nemendur eru hvattir til að temja sér árangursríkt vinnulag og að taka ábyrgð á eigin námi.
 • Að vinna að þróunarverkefnum og stefnumörkun og leita leiða til að koma sem best til móts við nemendur.

3. Þjónusta við nemendur

Nemendaþjónustan vinnur að því að styðja við nemendur sem að glíma við persónulegar, félagslegar og heilsufarslegar áskoranir og finna viðeigandi úrræði sem geta falist í fræðslu, stuðningi, faglegri ráðgjöf eða tilvísun til sérfræðinga utan skólans. Sértæk úrræði eru veitt nemendum sem eru að takast á við námsörðugleika, athyglisbrest með eða án ofvirkni (AD(H)D), sálfélagslega erfiðleika, fatlanir eða veikindi.

Kennarar eru mikilvægir tengiliðir á milli nemenda og nemendaþjónustu ef einhverjir erfiðleikar í námi eða persónulegu lífi koma upp. Kennarar geta vísað málefnum nemanda til nemendaþjónustu. Nemendur og forráðafólk geta leitað beint til nemendaþjónustu.

3.1. Almenn úrræði

Eftirfarandi úrræði eru hluti af þeirri þjónustu sem nemendaþjónustan veitir og standa öllum nemendum til boða.

 1. Náms- og starfsráðgjöf. Náms- og starfsráðgjafi sinnir persónulegri ráðgjöf og stuðningi í tengslum við nám, námsval og störf.
 2. Félagsráðgjöf. Skólafélagsráðgjafi sinnir persónulegri ráðgjöf vegna tilfinningalegra og félagslegra áskorana nemenda í samstarfi við foreldra, fagaðila og stofnanir eftir þörfum og þá í samráði við nemendur.
 3. Forvarnaviðtöl. Nemendaþjónustan hefur það hlutverk að upplýsa (styðja við) nemendur um hollt líferni og heilbrigðan lífsstíl og aðstoða nemendur við að breyta lífsstíl sínum til batnaðar.
 4. Námskeið. Til að mynda í námstækni, sjálfstyrkingu, lestrartækni og kvíðastjórnun.
 5. Tilvísanir til annarra fagaðila í samvinnu við nemanda og forráðamenn.

3.2 Sértæk úrræði

Nemandi sem telur sig þurfa á sértækum úrræðum að halda vegna erfiðleika sem hamla námsgengi hans, upplýsir nemendaþjónustuna um sín vandkvæði og þegar þess er þörf, skilar staðfestingu á greiningu. Nemendaþjónustan metur þörf nemandans fyrir sértæk úrræði vegna hamlana í námi með hliðsjón af reglugerð um nemendur með sérþarfir í framhaldsskólum nr. 230/2012. Upplýsingum um viðeigandi úrræði er því næst komið til kennara.

Sértæk úrræði í prófum, verkefnavinnu og kennslustundum geta verið eftirfarandi:

 • Upplestur á prófum, ritari í prófum eða leyfi til að taka munnleg próf (á við um próf sem vega meira en 10% af lokaeinkunn).
 • Tölvunotkun, talgervlar til lestraraðstoðar og notkun diktafóna.
 • Litaður pappír og stærra letur.
 • Próftaka í fámenni eða einmenni.
 • Leyfi til að hafa tónlist í eyrum.
 • Annað sem getur gagnast nemandanum.


3.2.1
Lestrar-, skriftar- og stærðfræðierfiðleikar
Eftirfarandi úrræði geta staðið nemanda með lestrar-, skriftar- og stærðfræðierfiðleika til boða:
a) Fræðsla um hvernig lestrar-, skriftar- og stærðfræðierfiðleikar hafa áhrif á nám og leiðir til að takast á við vandann.
b) Stuðningsviðtöl, þar sem meðal annars er farið yfir námslega stöðu þar sem stuðst er við upplýsingar frá fagkennurum.
c) Samstarf við foreldra og kennara.
d) Sértæk úrræði í prófum. Sjá lista að ofan yfir sértæk úrræði. Nemandi sem hefur farið í gegnum Davis leiðréttingu er auk þess heimilt að nota hjálpargögn Davis aðferðarinnar.
e) Ráðgjöf um hvar leita skuli frekari greiningar og úrlausna.

3.2.2 Athyglisbrestur með eða án ofvirkni (AD(H)D)
Eftirfarandi úrræði geta staðið nemanda með AD(H)D til boða: 
a) Fræðsla um hvernig AD(H)D hefur áhrif á nám og leiðir til að takast á við vandann.
b) Stuðningsviðtöl þar sem farið er yfir námslega stöðu og stuðst við upplýsingar frá fagkennurum.
c) Samstarf við foreldra og kennara.
d) Sértæk úrræði í prófum. Sjá lista að ofan yfir sértæk úrræði.
e) Samstarf við félagsþjónustu sveitarfélaga eða aðra fagaðila.
f) Ráðgjöf um hvert skuli leita frekari greiningar og úrlausna.

3.2.3 Sálfélagslegir erfiðleikar
Eftirfarandi úrræði geta staðið nemanda með sálfélagslega erfiðleika til boða:
a) Fræðsla og ráðgjöf í formi viðtala og námskeiða svo sem vegna kvíða, depurðar, slakrar sjálfsmyndar og fleira.
b) Samstarf við foreldra og kennara.
c) Sértæk úrræði í prófum. Sjá lista að ofan yfir sértæk úrræði.
d) Samstarf við félagsþjónustu sveitarfélaga eða aðra fagaðila.
e) Veikindadagbók.
f) Ráðgjöf um hvert skuli leita frekari greiningar og úrlausna.

3.2.4 Nemandi með staðfestar greiningar:
Eftirfarandi úrræði geta staðið nemanda með staðfestar greiningar (s.s. eins og einhverfu, þroskaraskanir o.fl.) til boða, í samstarfi við starfsfólk Starfsbrautar:
a) Undirbúningur fyrir komu nemandans í skólann í samstarfi við foreldra og stofnanir sem hafa komið að málum hans.
b) Einstaklingsnámskrá og einstaklingsbundin stundaskrá.
c) Samstarf við foreldra, félagsþjónustu og aðra aðila er koma að málefnum nemandans.
d) Regluleg stuðningsviðtöl.

3.2.5 Heilsufarslegur vandi
Eftirfarandi úrræði geta staðið nemanda með heilsufarslegan vanda til boða:
a) Persónuleg ráðgjöf og stuðningsviðtöl.
b) Samstarf við foreldra og kennara.
c) Sértæk úrræði í prófum. Sjá lista að ofan yfir sértæk úrræði.
d) Veikindadagbók.
e) Ráðgjöf um hvert skuli leita frekari greiningar og úrlausna.

3.2.6. Nemendur með íslensku sem annað tungumál
Eftirfarandi úrræði geta staðið nemendum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli, til boða í samstarfi við fagkennara:
a) Móttökuviðtal við upphaf skólagöngu
b) Stöðumat um miðbik fyrstu annar
c) Samstarf við foreldra og kennara
d) Persónuleg ráðgjöf og stuðningsviðtöl

Sjá nánar í móttökuáætlun fyrir nemendur af erlendum uppruna.

4. Mat

Þjónusta og úrræði á vegum Nemendaþjónustunnar eru metin reglulega af starfsmönnum og ráðþegum. Starfsmenn nemendaþjónustunnar vinna einnig jafnharðan að þróunarvinnu og stefnumörkun þjónustunnar.

5. Varðveisla og meðferð trúnaðargagna

Nemendaþjónustan hefur umsjón með varðveislu og meðferð trúnaðargagna um nemendur. Nemendaþjónustan sér um að miðla nauðsynlegum upplýsingum til starfsmanna ME og fagaðila annarra stofnanna sem koma að framkvæmd úrræða í þágu nemenda. Meðferð persónuupplýsinga skal vera í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 90/2018.

6. Málsmeðferð

Sætti nemandi sig ekki við meðferð sinna mála er honum heimilt að skjóta máli sínu til skólaráðs. 

7. Önnur verkefni nemendaþjónustu

Nemendaþjónustan vinnur í samstarfi við kennslustjóra starfsbrautar og framhaldsskólabrauta. Nemendaþjónustan á fulltrúa í áfallaráði ME, í framkvæmdanefnd um heilsueflandi framhaldsskóla og í forvarnarteymi um málefni ungmenna á Fljótsdalshéraði. Nemendaþjónustan sér jafnframt um eineltismál í samræmi við eineltisáætlun skólans. Starfsmenn Nemendaþjónustu hafa einnig umsjón með Mentor verkefninu Mentor-Factor.

Starfsmenn nemendaþjónustu ME eru

Bergþóra Arnórsdóttir, áfangastjóri
Helga Þorleifsdóttir, félagsráðgjafi
Nanna Halldóra Imsland, náms- og starfsráðgjafi

 

Endurskoðað í júní 2020.