Heimavist

Við Menntaskólann á Egilsstöðum er starfrækt heimavist sem rúmar 117 nemendur í 52 herbergjum. Heimavistargangarnir eru fjórir. Flest herbergin eru 2ja manna en þó eru 13 tveggja hæða herbergi ætluð þremur nemendum.  Í heimavistarhúsi er auk heimavistarinnar mötuneyti, félagsaðstaða fyrir nemendur, tónlistarherbergi og smiðja. 

Heimavist ME

Aðalinngangar kennslu- og heimavistarhúss eru nokkurn veginn hvor gegnt öðrum. Á austurgafli kennsluhúss er inngangur starfsmanna á efri hæð en inngangur nemenda (bakdyr) á neðri hæð. Inngangur í mötuneyti ME er á austurgafli vestur-austur álmu heimavistarhúss. Fjórir brunaútgangar eru á byggingunni, í norðurenda heimavistar, við inngang heimavistar á fyrstu hæð, bakhurð að bílastæði nemenda og síðan útgangur úr sal út á svalir á annari hæð. Einnig opnar aðalhurð hússins við brunaboð úr brunavarnarkerfi hússins.

Aðgengi hreyfihamlaðs fólks að húsakosti skólans hefur verið bætt til muna á undanförnum árum. Lyfta eru í kennsluhúsi og í heimavistarhúsi auk þess sem salerni fyrir hreyfihamlaða eru í báðum húsum. Eitt vistarherbergi heimavistarhúss er sérstaklega útbúið fyrir hreyfihamlaða. Bílastæði fyrir hreyfihamlaða er á milli kennslu- og heimavistarhúss og annað við inngang nemenda á neðri hæð kennsluhúss. Reglur heimavistar ME má finna hér.

Nýnemar/nýir nemendur í ME sækja um heimavistarpláss um leið og þeir innrita sig inn í skólann í gegnum Menntagátt. Eldri nemendur á heimavist endurnýja umsóknina sína hjá skólameistara á þar til gerðu umsóknarformi fyrir lok vorannar. 

Kostnaður

 Frekari upplýsingar um kostnað má finna í gjaldskrá ME

 

Nemendur sem flytja a.m.k. 30 km frá lögheimili sínu og fjölskyldu til að geta stundað nám, þ.e. þeir sem eru á heimavist og/eða greiða leigu eiga rétt á að sækja um jöfnunarstyrk, nánar tiltekið dvalarstyrk, hjá LÍN. Sjá nánar á www.menntasjodur.is 

Nemendur undir 18 ára eru minntir á að sækja um húsaleigustyrk í sínu sveitarfélagi. 

Múlaþing: Foreldrar/forráðafólk þarf að sækja um fyrir nemann í gegnum íbúagátt Múlaþings á vefsíðunni þeirra með rafrænum skilríkjum hér.

Fjarðabyggð: Foreldrar/forráðafólk þarf að sækja um fyrir nemann í gegnum íbúagátt Fjarðabyggðar á vefsíðunni þeirra með rafrænum skilríkjum hér. Þar á að vera hægt að finna eyðablöð undir félagsþjónustusviði sem eru merkt „húsnæðisbætur 15-16-17 ára". Eyðublaðinu er síðan skilað rafrænt inn auk húsaleigusamningsins sem var gerður við skólann í upphafi vistar.

Nemendur eldri en 18 ára skulu sækja um á www.hms.is

Reglur og búseta

Heimavistarreglur

1. Yfirstjórn heimavistar er í höndum skólameistara. Dagleg stjórn heimavistar er í höndum umsjónarmanns heimavistar sem er fulltrúi skólameistara en umsjón með og ábyrgð á að reglum sé fylgt hvílir á hverjum einstökum íbúa heimavistar.
2. Heimavistarbúar kjósa 5 manna vistarráð og fimm varamenn, skal það kosið innan tveggja vikna frá upphafi haustannar á almennum vistarfundi. Fráfarandi vistarráð situr fram að kosningum. Leitast skal við að meðlimir vistarráðs hafi sem fjölbreyttastan bakgrunn.
3. Skólameistari fer með dómsvald í málum er rísa vegna brota á heimavistarreglum. Dómum skólameistara má vísa til heimavistarráðs.
4. Almennan fund vistarbúa skal boða með sólarhrings fyrirvara með auglýsingum í húsum heimavistar. Einfaldur meirihluti ræður á fundum.
5. Reglur heimavistar skal endurskoða árlega en breytingar taka aðeins gildi að fenginni staðfestingu skólaráðs. Til að breytingatillögur verði bornar undir skólaráð þarf einfaldur meirihluti á löglega boðuðum fundi að samþykkja þær.
6. Heimavistin er heimili þeirra sem þar búa. Heimilismenn skoðast sem leigjendur að tilteknu húsnæði, réttindi þeirra og skyldur byggjast á leigusamningi og miðast við gildandi lög og reglur vistarinnar.
7. Vinnufriður skal ávallt vera á heimavistinni, jafnt á herbergjum sem á göngum. Frá kl. 24:00 til 7:00 dag hvern skal vera algert næði á vistinni. Næði skal auk þess vera til kl. 12:00 á sunnudögum og öðrum frídögum. Á námsmatsdögum skal vera góður vinnufriður allan sólarhringinn í húsum heimavistar.
8. Meðferð raflykla nemenda er á þeirra ábyrgð og óheimilt er að hleypa inn gestum eftir lokun heimavistar á virkum dögum. Gestir sem nemendur hleypa inn með raflykli um helgar eru á þeirra ábyrgð og ef þeir gerast brotlegir við heimavistarreglur þá getur viðkomandi nemandi misst raflykil sinn tímabundið.
9. Öll meðferð áfengra drykkja og annarra vímuvaldandi efna er bönnuð í húsum heimavistar og varðar brottvikningu er út af er brugðið. Þá er nemanda óheimilt að dvelja á heimavistinni undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna. Skólinn stendur fyrir reglubundnum og fyrirbyggjandi aðgerðum, svo sem utanaðkomandi eftirliti af hálfu lögreglu.
10. Reykingar, veip og önnur tóbaksnotkun er bönnuð með landslögum í öllu vistarhúsnæði ME og á lóð skólans.
11. Vistarbúar skulu ganga vel um hús, lóð og allt umhverfi. Herbergjum sínum skulu þeir halda hreinum og snyrtilegum. Bannað er að ganga á útiskóm um heimavistina og rusl á heima í ruslafötum. Umsjónarmaður í samvinnu við heimavistarráð lítur eftir því að þessu sé framfylgt.
12. Skemmdir á húsum eða munum skal tilkynna umsjónarmanni og ber að bæta þær að fullu. Skemmdir sem unnar eru vísvitandi varða brottrekstri. Heimilt er að taka af tryggingagjaldi heimavistarbúa uppí skemmdir/illa þrifin herbergi við endanleg skil að vori. Einnig ef lyklum og eða raflyklum sé ekki skilað.
13. Sérhver vistarbúi getur kært brot á vistarreglum til skólameistara eða umsjónarmanns heimavistar. Endurtekin brot á vistarreglum geta valdið brottrekstri.
14. Hús heimavistar eru læst á virkum dögum frá kl. 24:00 til kl. 05:45. Þá skal enginn óviðkomandi vera í húsum heimavistar. Umsjónarmaður heimavistar er á vakt frá kl 20:30 til kl. 00:30. Á föstudags og laugardags kvöldum er bakvakt og útihurðir læstar. Bakvaktarsími ME er 8487588.
15. Gestir á heimavist skulu almennt virða það að vistin er heimili íbúanna. Þeir skulu hafa vikið af vistinni fyrir 23:30 á kvöldin.
16. Gestir á grunnskólaaldri þurfa leyfi umsjónarmanns heimavistar til að heimsækja heimavistarbúa. Á vetrum gilda almenn viðmið um útivistartíma barna (kl 22:00)og dvelja grunnskólanemendur ekki lengur á heimavist en sá tími segir til um.
17. Vistarbúa er því aðeins heimilt að hafa hjá sér næturgest, að sambýlingur og umsjónarmaður /skólameistari samþykki. Næturgestir skulu eigi vera yngri en á 16. aldursári og verða gestir undir lögaldri að framvísa skriflegu leyfi foreldra. Sækja þarf um gestaleyfi til umsjónarmanns /skólameistara með minnst sólarhrings fyrirvara. Gestir eru að fullu á ábyrgð gestgjafa og ber þeim að hlíta heimavistarreglum. Sama gildir um gesti frá öðrum skólum.
18. Gestaleyfi eru ekki veitt á balldögum nema með leyfi skólameistara vegna sérstakra kringumstæðna. Ballvakt á heimavist er til kl 02:00 eða klst eftir lokun ballstaða
19. Vistarbúar sem hyggjast dvelja á heimavist yfir helgi skulu skrá viðveru/brottför hjá umsjónarmanni/skólameistara á fimmtudagskvöldi.
Yfirfarið og samþykkt á heimavistarfundi ME 1.sept 2019

Vinnureglur varðandi umgang starfsmanna ME um herbergi vistarbúa

Vinnureglur varðandi umgang starfsmanna ME um herbergi vistarbúa:


„Heimavistin er heimili þeirra sem þar búa. Heimilismenn skoðast sem leigjendur að tilteknu húsnæði,réttindi þeirra og skyldur byggjast á leigusamningi og miðast við gildandi lög og reglur vistarinnar.“ (6.gr.)

 

Tilefni þess að starfsfólk á vegum húsráðanda (Skólameistari, staðgengill skm, húsfreyja, gæslukennari, húsvörður, iðnaðarmenn) komi og banki uppá á einstaka herbergi getur verið:
1) Viðgerðir og viðhald húsnæðis og húsbúnaðar. (kl. 8-18)
2) Lokanir á gluggum, stillingar á ofnum, slökkvun ljósa og læsing herbergja á föstudagskvöldum og við upphaf lengri leyfa. (kl. 18-20)
3) Vikuleg, auglýst, herbergjaskoðun vegna eftirlits með þrifum og umgengni. (Kl. 20-22)
4) Veikindi vistarbúa.
5) Dempun hávaða frá hljómflutningstækjum, tölvum og sjónvörpum.
6) Könnun á boðum frá reykskynjara á herbergi.
7) Eftirlit vegna rýmingar húsnæðis í kjölfar brunaboða eða brunaæfinga.
8) Rökstuddur grunur um brot á heimavistarreglum (s.s. vímuefni, tóbak, næturgesti)
9) Rökstuddur grunur um háttsemi sem refsiverð getur talist skv. landslögum (s.s. innbrot, líkamsárás, kynferðisbrot)
Að auki getur komið til húsrannsóknar að hálfu lögreglu en í slíkum tilvikum er leitað samþykkis viðkomandi íbúa ef ekki liggur fyrir skrifleg heimild til húsrannsóknar.

Vinnureglur:
Í öllum tilvikum 1) - 5) skal starfsmaður á vegum skólans banka á herbergisdyr áður en inngöngu er leitað. Ef ekki er ansað/komið til dyra er starfsmanni heimilt að fara inn í herbergið ef dyr ólæstar en annars skal bankað aftur. Ef ekki er ansað í hið seinna sinn er starfsmanni heimilt að opna með lykli enda sé erindi hans það brýnt að ekki megi bíða betri tíma.
Í tilvikum 6) - 9): Bankað, viðkomandi gerir grein fyrir sér og erindi, opnar með lykli ef þarf.
Yfirfarið og samþykkt á heimavistarfundi ME 1. september 2019

Reglur um notkun öryggisvélakerfa ME

Öryggismyndavélakerfi á vegum skólans er í heimavistar- og þjónustuálmu skólans.
Sérstakt öryggismyndavélakerfi er í kennsluhúsi skólans.
Tilgangur vöktunar með öryggismyndavélum er eignavarsla og eftirlit með húsakynnum skólans, sér í lagi þegar gæslufólk er ekki í húsakynnunum.
Eftirfarandi reglur gilda um notkun kerfanna:

  • Notkun skal ávallt vera í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga (77/2000 með áorðnum breytingum), reglur nr. 698/2004 um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga og reglur nr. 837/2006 um rafræna vöktun.
  • Við útidyr skulu ávallt vera merkingar sem kunngjöra að húsnæðið sé vaktað með öryggismyndavélum.
  • Myndefni er varðveitt í allt að 90 daga.
  • Skólameistari einn hefur heimild til að skoða upptökur frá. Aðgangur að öryggismyndavélakerfi skal varinn með aðgangs- og leyniorðakerfi sem skólameistari ber ábyrgð á.
  • Beiðni um leit í upptökum myndavélakerfis skal komið á framfæri við skólameistara og skal tilgreina tilefni og tímamörk umbeðinnar leitar.
  • Skm skráir rafrænt hvenær eldra myndefni er skoðað, af hvaða tilefni það er gert og hver biður um það. Niðurstöður leitar skulu skráðar á sama hátt.
  • Íbúum heimavistar skal gerð grein fyrir reglum þessum á fundum þeirra með skólameistara og húsfreyju við upphaf hverrar annar.
  • Öryggismyndavélar á herbergisgöngum heimavistar eru ekki tengdar nema fyrir liggi skriflegt samþykki allra íbúa á viðkomandi gangi.

Yfirfarið og samþykkt á heimavistarfundi ME 1. september 2019

Heimavistarráð

Heimavistarráð er skólameistara og húsfreyju/húsbónda heimavistar til ráðuneytis um málefni heimavistar og mötuneytis. Heimavistarbúar kjósa fimm manna vistarráð og fimm varamenn, skal það kosið innan tveggja vikna frá upphafi haustannar á almennum vistarfundi. Fráfarandi vistarráð situr fram að kosningum.