Öryggi nemenda og starfsmanna Menntaskólans á Egilsstöðum er undir stöðugu eftirliti. Reglulega er unnið áhættumat með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna auk áhættuþátta í umhverfinu. Niðurstöður áhættumats fara í umbótaáætlun skólans. ME býr yfir ýmsum úrræðum, ferlum og fyrirbyggjandi aðgerðum sem styðja við aðgerðir til að auka öryggi og heilsu starfsmanna og nemenda, má þar nefna starfsmannastefnu, heilsustefnu, öryggishandbók, umgengnisreglur í opnu rými og margt fleira. Við skólann starfar öryggisnefnd, öryggistrúnaðarmaður og öryggisfullrúi eins og lög gera ráð fyrir.
Hringið í neyðarnúmerið 112
Flóttaleiðir eru merktar með „ÚT“-skiltum á hverri hæð.
Í eldsvoða má ekki nota lyfturnar.
Árni Ólason | Skólameistari | s. 8619087 |
Jóhann Hjalti Þorsteinsson | Umsjón heimavistar | s. 8487588 |
Bergþóra Arnórsdóttir | Áfangastjóri | s. 8422838 |
Erlendur Steinþórsson | Húsvörður | s. 8966430 |
Ef brunaviðvörunarkerfi skólans fer í gang skulu starfsmenn skólans sem ekki eru bundnir yfir nemendum mæta í aðalanddyri skólahúss og/eða heimavistarhúss ME nema ef þar er reykur. Þar er lesið af kerfinu hvaðan viðvörunarboð koma. Skrá skal öll boð í ferilbók.
Ef um hættuástand er að ræða eru hljóðgjafar aftur ræstir með því að rjúfa handboða. Hafa skal samband við neyðarlínu í síma 112 og tilkynnt um hættuástand því að ELDVARNARKERFI SKÓLANS ER EKKI BEINTENGT VIÐ SLÖKKVILIÐ.
Ef um falsboð er að ræða er það tilkynnt til öryggismiðstöðvar í síma 5302400.
Þegar eldvarnarkerfi fer í gang í heimavistarhúsi ME utan skólatíma skal bregðast við því með eftirfarandi hætti.
Síðast uppfært 28.11.2018
Áfallaáætlun
Samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs merkir orðið áfall m.a. slys, tjón, mótlæti, þungbær reynsla eða sjúkdómur. Dauðsföll og slys gera ekki boð á undan sér og því er fólk misvel í stakk búið að taka á áföllum og vinna úr þeim.
Áfallaráð fer með verkstjórn þegar válegir atburðir gerast sem snerta nemendur og starfsmenn skólans. Í meginatriðum er hlutverk áfallaráðs að gera vinnuáætlun svo bregðast megi fumlaust og ákveðið við, þegar áföll hafa orðið, s.s. bráð veikindi, alvarleg slys, andlát eða aðrir atburðir sem líklegir eru til að kalla fram áfallastreitu og/eða sorgarviðbrögð.
Áfallaráð vinnur eftir skýrri og afdráttarlausri áætlun um hver sinni hvaða hlutverki, í hvaða röð og hvernig beri að bregðast við áföllum.
Mikilvægt er að huga vandlega að óskum fjölskyldna þeirra sem hlut eiga að máli hverju sinni. Við skipulag áfallahjálpar og viðbragða, þarf að hafa í huga alla þá einstaklinga sem koma að starfsemi skólans s.s. nemendur, aðstandendur, kennara, stjórnendur, starfsfólk heimavistar og starfsfólk í eldhúsi.
Áfallaráð skal sjá til þess að allt starfsfólk fái kynningu á áætluninni og að kennarar fái stuðning og hjálp.
Í kynningu með foreldrum/forráðamönnum nýnema að hausti eru foreldrar/forráðamenn beðnir um að láta ávallt vita ef breyting verður á aðstæðum nemenda vegna alvarlegra slysa, veikinda, dauðsfalla eða annarra áfalla.
Í áfallaráði sitja:
Skólameistari
Skólafélagsráðgjafi
Mannauðsstjóri/Áfangastjóri
Ef við á
Húsfreyja á heimavist
Ritari skólans
Skólameistari er formaður ráðsins og kallar það saman þegar þörf krefur.
Uppfært 7.11.2017
Viðbragðsáætlun vegna eineltis og ofbeldis
Skólayfirvöld Menntaskólans á Egilsstöðum lýsa því yfir að einelti, áreiti og ofbeldi sé ekki liðið í skólanum og leitað verði allra leiða til að fyrirbyggja það og leysa þau mál sem upp koma á farsælan hátt. Menntaskólinn á Egilsstöðum á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af virðingu og samvinnu allra til að góður árangur náist í skólastarfinu. Öllum á að geta liðið vel í skólanum og njóta virðingar sem einstaklingar. Ávallt skal lögð áhersla á góð samskipti innan Menntaskólans á Egilsstöðum
Eftirfarandi skilgreiningar eru byggðar á reglugerð um aðgerðir gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað nr. 1009/2015. Einelti, ofbeldi og áreitni getur birst jafnt í gegnum bein samskipti og í gegnum netmiðla s.s. facebook, twitter og sms skilaboð.
Það er sameiginleg ábyrgð allra á vinnustaðnum að koma vel fram og vera vakandi fyrir því ef einhver verður fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi. Það er skylda okkar allra að koma upplýsinum um slíkt í þannig farveg að hægt sé að vinna að lausn.
Verði nemandi eða starfsmaður var við einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustað ber honum að skoða málið og bregðast við án tafar í samræmi við vinnureglur þessar. Ef ástæða er til skal upplýsa kennslustjóra, öryggistrúnaðarmann eða annan sem viðkomandi kýs að ræða við. Einnig er hægt að upplýsa nemendaþjónustu, mannauðsstjóra/skólameistara um málið og jafnvel vísa málinu formlega til hans. Starfsmaður sem verður fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi getur einnig vísað málinu beint til mannauðsstjóra/skólameistara án milliliða.
Á vinnustöðum geta einnig komið upp ágreiningsmál og samskiptaörðugleikar sem falla ekki undir vinnureglur þessar en valda engu að síður óþægindum. Mikilvægt er að leysa slík mál án tafar áður en þau þróast til verri vegar.
Gerandi getur verið ómeðvitaður um að þolandi kunni ekki við þá hegðun sem hann viðhefur. Því er mikilvægt að gera viðkomandi grein fyrir því að þolanda líki ekki framkoman og muni ekki þola hana. Ef þolandi treystir sér ekki til að tala við gerandann ætti að leita aðstoðar hjá aðila sem viðkomandi treystir eða tilkynna málið til nemendaþjónustu skólans, skólameistara eða mannauðsstjóra.
Mikilvægt er að tilkynna málið sem fyrst og skrá nákvæma lýsingu á atburðum.
• Ef tilkynning berst vegna meints eineltis milli nemenda eru starfsmenn nemendaþjónustu skólans kallaðir til fundar.
• Málið er kannað svo fljótt sem auðið er m.a. rætt við þá aðila sem hlut eiga að máli.
• Þolandi og meintur gerandi eiga rétt á að trúnaðarmaður sé viðstaddur, sé eftir því óskað.
• Haft er samband við forráðamenn ólögráða nemenda (gerenda/ þolenda) ef þurfa þykir.
• Nemendaþjónusta leggur fram tillögur um lausn málsins og fylgir þeim eftir.
• Málinu er vísað til skólameistara ef þarf.
• Málsaðilum er boðið upp á stuðningsviðtöl eftir þörfum.
• Málið er vaktað áfram og leitað aðstoðar utan skólans ef þurfa þykir.
Allar tilkynningar og ábendingar skulu skráðar og farið með þær skráningar sem trúnaðarmál.
Þegar tilkynnt er um meint einelti, áreitni eða ofbeldi fer ákveðið ferli af stað þar sem hægt er að fara tvær leiðir. Annars vegar er hægt að fara óformlegri leið, sem ætti alltaf að vera fyrsta val ef hægt er. Hin leiðin felst í formlegum aðgerðum, sem hefjast með því að málið er tilkynnt formlega til mannauðssjóra/skólameistara. Allar tilkynningar og ábendingar skulu skráðar og farið með þær skráningar sem trúnaðarmál.
Slík málsmeðferð felur í sér að leitað er upplýsinga hjá þolanda og honum veittur stuðningur með trúnaðarsamtali eða ráðgjöf. Leitast er við að leysa málið svo að sem fæstum sé blandað í málið.
• Málið er tilkynnt til þess sem þolandi treystir (trúnaðaraðila t.d. kennslustjóra, nemendaþjónustu, trúnaðarmanns stéttarfélags, öryggistrúnaðarmanns) sem fer yfir málið í ró og næði með starfsmanninum sem lætur vita. Mikilvægt er að skrá og dagsetja allar upplýsingar sem veittar eru munnlega.
• Leitað er upplýsinga um málið og rætt við þolanda og meintan geranda, hvorn í sínu lagi.
• Þolandi og meintur gerandi eiga rétt á að trúnaðarmaður sé viðstaddur, sé eftir því óskað.
• Lagðar eru fram tillögur til lausnar á vandanum.
• Metin er þörf fyrir stuðning og þolanda vísað á aðila sem geta aðstoðað.
• Trúnaðaraðilinn heyrir reglulega frá þolanda og fylgir því eftir að aðstæður breytist til batnaðar.
• Ef ástæða þykir til skal tilkynna mannauðsstjóra/skólameistara um málið.
Ef mál er mjög alvarlegt, reynt hafi verið að leysa það án árangurs eða ef þolandi kýs, er málið tilkynnt formlega til mannauðsstjóra/skólameistara með því að fylla út þar til gert eyðublað. Farið er yfir málið í ró og næði með starfsmanninum sem lætur vita. Mikilvægt er að skrá og dagsetja allar upplýsingar sem veittar eru munnlega. Mannauðsstjóri og skólameistari leita eftir upplýsingum um málið og rætt er við þolanda og meintan geranda, hvorn í sínu lagi. Þolandi og meintur gerandi eiga rétt á að trúnaðarmaður sé viðstaddur, sé þess óskað.
• Rætt er við aðra sem geta veitt upplýsingar um málið t.d. samstarfsmenn en forðast þarf að draga fleiri inn í málið en nauðsynlegt er. Rætt er við einn aðila í einu.
• Ef ástæða þykir til getur mannauðsstjóri/skólameistari óskað eftir aðstoð utanaðkomandi sérfræðings.
• Lagðar eru fram tillögur til lausnar á vandanum.
• Metin er þörf fyrir stuðning og þolanda vísað á aðila sem geta aðstoðað.
• Sé niðurstaðan sú að um einelti, áreitni eða ofbeldi sé að ræða skal huga að rétti þolanda. Ef ástæða er til skal lagt til að skoða heimild til að áminna geranda. Þá skal það tryggt að vinnuumhverfi þolanda sé öruggt.
• Mannauðsstjóri og/eða skólameistari tilkynna geranda og þolanda, og þeim sem komu að málinu lokaniðurstöður og upplýsa þegar málinu er lokið.
• Mannauðsstjóri og/eða skólameistari heyra reglulega frá þolanda og fylgja því eftir að aðstæður breytist til batnaðar.
Á meðan á könnun máls stendur skal reynt að hafa samskipti þolanda og meints geranda í lágmarki. Jafnframt skal huga að líðan þolanda sem og meints geranda. Verði niðurstaðan sú að ekki sé um einelti, áreitni eða ofbeldi að ræða skal greint frá því hvers vegna sú niðurstaða er fengin. Ef ásakanir reynast tilefnislausar er ástæða til að skoða það sérstaklega. Eins skal skoða hvort ástæða sé til að bregðast við með einhverjum hætti, t.d. ef niðurstaða er sú að um ágreining eða samskiptavanda sé að ræða.
Viðbragðsáætlun þessi skal kynnt árlega fyrir öllum starfsmönnum að vori í tengslum við niðurstöður starfsmannakannana.
1. útgáfa 21. október 2018
2. útgáfa 11.desember 2018
Kynnt á kennarafundi 19.11.2018
Kynnt á skólanefndarfundi 27.11.2018
Viðbrögð við vá
Viðbragðsáætlun við ógnum, náttúruvá, smitsjúkdómum, efnaslysum ofl. Smellið á myndina til að opna áætlunina.