Í ME starfar félagsráðgjafi í 75% stöðu. Félagsráðgjafi er til taks fyrir nemendur sem glíma við ýmiskonar áskoranir, áföll, vanlíðan eða vilja einfaldlega vinna með styrkleika og sjálfsþekkingu.
Renndu endilega yfir eftirfarandi punkta og smelltu á plúsinn ef þú vilt fræðast meira.
Viltu bæta andlega líðan þína? Ertu að glíma við t.d. kvíða, þunglyndi eða aðra vanlíðan sem þú vilt bæta?
Kvíði tengdur námi, félagslegum aðstæðum, heilsu, eða bara lífinu almennt, depurð, OCD einkenni og fullkomnunarárátta eru allt algengar ástæður þess að nemendur leita til félagsráðgjafa skólans. Ef þú ert að upplifa slíkt getur þú verið viss um að þú ert ekki ein/einn/eitt. Félagsráðgjafi getur stutt nemendur sem glíma við vanlíðan af ýmsu tagi og jafnframt vísað á leiðir innan heilbrigðiskerfisins sé þess þörf.
Ertu að upplifa eða hefur þú gengið í gegnum áföll, einelti, sambandsslit eða sorg sem valda þér vanlíðan?
Það fer enginn í gegnum lífið án þess að upplifa áföll, missi og sorg og í slíkum kringumstæðum geta margar ólíkar og mótsagnakenndar tilfinningar kviknað sem gott og gagnlegt getur verið að ræða og reyna að skilja og sættast við, fremur en að bæla þær niður eða fordæma. Í kjölfar áfalla er mikilvægt að huga að leiðum til hlúa að sjálfum sér og við allt þetta getur félagsráðgjafi aðstoðað þig.
Ertu að upplifa ofbeldi af einhverju tagi, á heimili, í nánu sambandi eða annarsstaðar. Eða ertu ekki alveg viss hvort það sem þú upplifir sé ofbeldi og langar að átta þig á því?
Ofbeldi getur verið allskonar, líkamlegt, andlegt, kynferðislegt, stafrænt, og getur átt sér stað í ýmsum aðstæðum og af hálfu allskonar fólks, sem jafnvel stendur okkur mjög nærri. Afleiðingar ofbeldis geta verið margskonar, djúpstæðar og langvarandi. Þess vegna er mikilvægt að leita sér stuðnings og aðstoðar bæði til að komast út úr ofbeldisaðstæðum eða -sambandi og eins til að vinna með afleiðingar þess. Félagsráðgjafi getur stutt þig við hvoru tveggja.
Stundum er maður ekki alveg viss hvort það sem maður upplifir er ofbeldi eða hvort þetta sé kannski bara allt manni sjálfum að kenna eða bara eitthvað í hausnum á manni. Þá getur verið mjög dýrmætt að setjast niður og ræða málin í trúnaði, fá speglun og skilning og félagsráðgjafi ME er þar til taks.
Glímir þú við félagslega erfiðleika, s.s. veikt stuðningsnet eða fátækt?
Það getur verið ansi snúið að fara í gegnum krefjandi nám og ekki síður lífið sjálft án þess að eiga heilbrigt og gott stuðningsnet í kringum sig eða ef maður upplifir fjárhagsáhyggjur og erfiðleika. Félagsráðgjafi hefur góða yfirsýn yfir úrræði og leiðir t.d. í velferðarkerfinu og getur aðstoðað við að finna lausnir.
Viltu læra að þekkja sjálfan þig betur og kynnast styrkleikunum þínum? Auka seiglu og jákvæðni í námi og daglegu lífi?
Það að þekkja sjálfan sig, styrkleika sína og vankanta getur verið mjög gagnlegt til að takast sem best á við þær áskoranir sem upp koma í náminu, samskiptum og lífinu almennt. Félagsráðgjafi skólans getur hjálpað þér að kynnast styrkleikum þínum, við hvaða aðstæður þeir fá að blómstra og hvenær þarf að hlúa sérstaklega að þeim.
Ertu að glíma við lágt sjálfsmat eða brotna sjálfsmynd og langar að upplifa sjálfan þig á jákvæðari hátt?
Það er margt sem við förum í gegnum á lífsleiðinni sem getur molnað úr sjálfsmyndinni okkar og fengið okkur til að efast um eigin getu og ágæti. Það getur verið erfitt að vera sinn versti gagnrýnandi og vera sífellt að kljást við niðurrifshugsanir og vantrú á eigin getu. Félagsráðgjafi getur aðstoðað við að efla sjálfsþekkingu, unnið með styrkleika og sjálfsalúð og -mildi.
Viltu bæta samskipti þín við aðra? Áttu í samskiptaerfiðleikum eða finnst erfitt að kynnast nýju fólki eða setja öðrum mörk í samskiptum?
Samskipti geta verið flókin og margslungin og margt sem getur haft áhrif á gæði þeirra og getu hvers og eins til að eiga heilbrigð og jákvæð samskipti, setja mörk og finna hugrekki og leiðir til að kynnast nýju fólki. Félagsráðgjafi getur aðstoðað þig ef þig langar til að velta þessum þáttum fyrir þér, átta þig betur á félagslegum styrkleikum þínum og hvað það er sem hindrar þig í að nýta þá til fulls eða ef þú þarft að átta þig betur á hvar mörkin þín liggja og hvernig þú getur sett öðrum mörk í samskiptum.
Langar þig að vinna að bættri líkamsímynd og læra að meta betur líkamann þinn?
Finnst þér erfitt að horfa í spegil, upplifir að aðrir dæmi þig vegna útlits eða finnst þú sífellt þurfa að laga/stækka/minnka eitthvað við líkamann þinn og langar að líða betur og vera sáttari í eigin skinni? Félagsráðgjafi getur aðstoðað við að takast á við slíkar hugsanir og bent á leiðir til að hugsa á uppbyggilegri hátt, bent á margskonar fræðsluefni eða leiðir innan velferðar- og heilbrigðiskerfsins, sé þess þörf.
Glímir þú við langvarandi veikindi sem hafa áhrif á mætingar og námsgetu?
Nemendum sem glíma við langvarandi veikindi sem hafa áhrif á skólasókn umfram það sem skólasóknarreglur gera ráð fyrir geta óskað eftir veikindadagbók. Nemandi þarf að framvísa læknisvottorði og óska eftir þar til gerðri veikindadagbók til að skrá veikindi í. Þá er tekið tillit til þess við uppgjör mætinga og fjarvista. Félagsráðgjafi heldur utan um veikindadagbækur og getur sagt þér allt um málið.
Heldurðu að þú gætir mögulega verið með athyglisvanda, kvíða, þunglyndi eða aðrar raskanir sem hamla þér að ná árangri í náminu og lífinu?
Félagsráðgjafi ME getur lagt fyrir ASEBA skimunarlista sem gefur vísbendingar um hvort vandi sé til staðar og hvort ástæða sé til frekari greiningar og meðferðar og hvar slíkt sé að finna í kerfinu.
Þarftu á stuðningi að halda við að aðlagast félagslífinu eða náminu í skólanum?
Félagsráðgjafi hefur umsjón með stuðningskerfinu Mentor-Factor sem er ætlað að efla samvinnu, skólabrag og skapa nemendum tækifæri til að kynnast nýju fólki og nýjum hliðum á sjálfum sér. Mentor-Factor verkefnið er óformlegt, einingabært nám sem er ætlað að leiða saman ólíka nemendur, annars vegar nýnema=Factora og hins vegar eldri nemendur=Mentora, með það að markmiði að:
Líður þér illa og þú veist ekki alveg af hverju?
Öll göngum við í gegnum erfiða daga og tímabil og þá getur verið gott að ræða líðan sína í trúnaði við fagaðila sem getur aðstoðað við að leita orsaka og/eða leiða að bættri líðan.
Ertu með spurningar um náin sambönd, kynlíf, kynsjúkdóma, ótímabæra þungun eða kynferðisofbeldi?
Náin sambönd, kynlíf og allt sem því fylgir getur verið óskaplega dásamlegt en við vitum líka að stundum er það alls ekki þannig og ýmislegt getur endað öðruvísi en til stóð. Þá getur verið gagnlegt að ræða málin í trúnaði og leita leiða um næstu skref.
Kynferðisofbeldi er útbreiddur og alvarlegur vandi sem getur haft mikil áhrif á líðan og virkni þeirra sem fyrir verða. Það er því mikilvægt að leita sér aðstoðar og vinna með þær beinu og óbeinu afleiðingar sem eftir sitja.
Ertu með vangaveltur um kynhneigð og litróf regnbogans?
Ertu að velta fyrir þér kynhneigð eða ert með pælingar um margbreytileikann? Félagsráðgjafi skólans þekkir ágætlega til þessara þátta og starfar að auki í góðu samstarfi við Hinsegin Austurland, 78 samtökin og fleiri samtök og fagaðila regnbogans.
Hefurðu áhyggjur af einhverjum sem þér finnst vænt um en veist ekki hvert þú átt að snúa þér?
Það getur verið erfitt að langa til að aðstoða og styðja einhvern en vita ekki hvernig maður á að fara að því eða standa frammi fyrir því að það verkefni er of stórt fyrir bara þig. Félagsráðgjafi getur verið innan handar um ýmsar lausnir og leiðir, leiðbeint um frumskóga velferðar- og heilbrigðiskerfisins, bent á fræðsluefni, faghópa og félagasamtök sem gætu komið að gagni.
Ertu að glíma við áfengis- eða fíkniefnavanda eða ertu aðstandandi einhvers sem glímir við slíkt?
Fíknisjúkdómar eru flóknir og snerta aðstandendur ekki síður en þá sem glíma við fíkn. Vanmáttur, reiði, meðvirkni og áhyggjur eru t.d. algengar tilfinningar aðstandenda. Hvort sem þú hefur áhyggjur af eigin neyslu eða einhvers sem stendur þér nærri, getur verið gagnlegt að ræða við félagsráðgjafa um málið til að spegla líðan eða fá upplýsingar um úrræði og leiðir innan heilbrigðis- og velferðarkerfsins.
Finnst þér gott að fá hvatningu og geta spjallað um það sem þér liggur á hjarta þann daginn?
Það þarf ekkert allt að vera í steik til að spjall við félagsráðgjafa eigi rétt á sér. Það má líka bara koma og spjalla um daginn og veginn, bera upp spurningar og vangaveltur eða fá smá speglun og pepp.
Ertu foreldri nemanda og hefur áhyggjur af líðan, félagslegri eða námslegri stöðu viðkomandi?
Við viljum gjarnan vera í góðu samstarfi við foreldra og þeim er alltaf velkomið að leita til okkar varðandi áhyggjur eða vangaveltur sem kunna að kvikna á skólagöngunni.
Hefurðu áhuga á náttúrumeðferð og að dýpka tengslin við sjálfan þig og náttúruna?
Endilega kíktu við hjá Hildi félagsráðgjafa, hún er nefnilega líka menntaður náttúrumeðferðaraðili og finnst fátt betra en að vera úti í náttúrunni og nýta hana í meðferðarvinnu.
Félagsráðgjafi (hildur@me.is)
Viðvera mán. og fös frá 9-12. Þri., mið. og fim. frá 9-16.
Hildur í 5 jákvæðum lýsingarorðum: Brosmild, hugmyndarík, atorkusöm, jákvæð og hvetjandi.
Lífsmottó: Allt sem þú vilt geta skaltu gera, galdur, kraft og snilli muntu úr býtum bera!
Lífsgildi: Gleði, heilindi, þakklæti, kraftur, hugrekki og ævintýri.