Ættir Austfirðinga og Glettingur

Ættir Austfirðinga

Menntaskólinn á Egilsstöðum hefur komið að nokkrum útgáfuverkefnum. Ber þar helst að nefna að færa í netútgáfu merkasta ættfræðirit Austfirðinga sem sr. Einar Jónsson frá Hofi í Vopnafirði tók saman á árunum 1880 til 1930 og Austfirðingafélagið í Reykjavík gaf út að Einari látnum, í átta bindum frá 1953-1968 auk nafnaskrár. Ritið hefur æ síðan verið aðalheimild ættfræðinga, Íslendingabókar og annarra ættfræðivefja um austfirsk ættartengsl. Árið 1965 stofnaði Benedikt Gíslason frá Hofteigi ásamt eftirlifandi börnum sr. Einars Menningarsjóð prófasthjónanna á Hofi. Höfuðstóll menningarsjóðsins voru tekjur af sölu á Ættum Austfirðinga og var sjóðnum ætlað „að styrkja bókasafn Eiðaskóla en ennfremur að styrkja og stuðla að söfnun og útgáfu á hvers konar austfirzkum ætta- og sagnafróðleik“. Þegar Alþýðuskólinn á Eiðum var sameinaður Menntaskólanum á Egilsstöðum tók ME við menningarsjóðnum og sá lager sem enn var til af bókunum var settur í vörslu Héraðsskjalasafns Austfirðinga. Fyrir allnokkrum árum var ákveðið að hefja vinnu að rafrænni útgáfu af Ættum Austfirðinga og skanna öll níu bindin. Fyrir fáum árum var tekin ákvörðun um að sameina Menningarsjóð prófasthjónanna á Hofi við Skólasjóð ME og jafnframt samþykkt að síðasta verkefni sjóðsins yrði að kosta gerð vefaðgengis að Ættum Austfirðinga. Vefsmiðnum Eddu Jónsdóttur Langworth var falið að koma skönnuðum bókunum yfir á leitarbæran og samfléttaðan vef þar sem Austfirðingar geta nú með auðveldum hætti leitað forfeðra og formæðra sinna. Menntaskólinn á Egilsstöðum þakkar Eddu fyrir vel unnið verk og Héraðsskjalasafni Austfirðinga fyrir samstarfið við að koma þessu langtímaverkefni í höfn.Ættir austfirðinga

Leiðin á vefinn Ættir Austfirðinga er http://www.aettiraustfirdinga.is/

Vefurinn var opnaður 1. desember 2018, á 100 ára fullveldishátíð Íslands. 

 

Glettingur 1999 og 2019

Í tilefni af 20 ára og 40 ára afmæli skólans komu út afmælisrit í samstarfi við Gletting útgáfufélag. Bæði blöðin eru aðgengileg hér á síðunni. Blöðin innihalda samsafn af ýmsu skemmtilegu úr sögu ME. Ef smellt er á myndirnar af blöðunum opnast þau.

Glettingur 1999       Glettingur 2019