Langar þig að verða ME-ingur?

Ertu að velta fyrir þér að sækja um í ME? 

Menntaskólinn á Egilsstöðum er frábær kostur fyrir þá sem hyggjast stunda framhaldsnám að grunnskóla loknum. Það er samdóma álit nemenda og starfsmanna skólans að skólinn sé hæfilega stór og samskiptin persónuleg og hlýleg því allir þekkja alla.

Sérstaða ME eru spannir og verkefnatímar. Hverri önn er skipt í tvær spannir. Nemendur taka því færri áfanga í einu, einbeita sér að þeim og klára og byrja svo á nýjum áföngum á nýrri spönn. Verkefnatímar eru hluti af stundaskrá nemenda, þar vinna þeir sjálfir í sínum verkefnum með aðstoð kennara eftir þörfum.

Ég fílaði þetta spannarkerfi í döðlur sko!


Vel útbúin heimavist og fjölbreytt mötuneyti  

Heimavist Menntaskólans á Egilsstöðum er beint á móti kennsluhúsinu okkar. Hinum megin við götuna er einnig sundlaug og sauna, líkamsræktaraðstæða, íþróttahús og glænýtt fimleikahús. Matvöruverslanir, heilsugæslan og önnur þjónusta er innan seilingar. Skólinn er því í göngufjarlægð við allt það helsta. Þú getur farið í sýndarferðalag um húsnæði skólans og nágrenni hér.

Í húsnæði heimavistar er einnig gott og heilnæmt mötuneyti en heimavistarbúar fá morgunmat, hádegismat og kvöldmat alla virka daga. Aðrir nemendur skólans geta skráð sig í mat eða keypt matarmiða og notið fjölbreytts og næringarríks hádegisverðar alla skóladaga. Hér má finna frekari upplýsingar um heimavist ME og mötuneyti


Námsbrautirnar í ME 

Í ME er hægt að stunda nám til stúdentsprófs á félagsgreinabraut, listnámsbraut og náttúrufræðibraut. Í ME er einnig starfsbraut og framhaldsskólabraut.

Hefurðu áhuga á mannlegri hegðun og samskiptum og samspili einstaklings og samfélags? 


Ertu skapandi og hefur áhuga á nýta hugmyndaflugið á sviði sjónlista, sviðslista eða hönnunar? 


Eiga náttúrufræði- og raungreinar kannski frekar hug þinn allan? 


Félagslífið í ME!

Í ME er fjölbreytt félagslíf og taka félög og klúbbar mið af samsetningu nemendahópsins og áhuga hverju sinni. Nemendafélag ME (NME), er stýrt af 11 manna nemendaráði sem kosið er í að vori. Allri starfssemi félagsins er haldið úti af nemendaráðinu og nemendum skólans, með stuðningi frá starfsfóki skólans. Síðustu ár hafa eftirfarandi félög verið starfandi við skólann; Leikfélag ME (LME), Tónlistarfélag ME (TME), Íþróttafélag ME (ÍME), Málfundafélag ME (MME), Kindsegin (Hinseginfélag ME), FeME (femínistafélag ME) og Ritnefnd ME. Einnig hafa verið virkur Dungeons & dragons spilahópur, kvikmyndafélag, rafíþróttafélag o.fl. 

Fylgist endilega með NME á samfélagsmiðlum:

nmegram á Instagram.
nmeforever á Tiktok.
leikfelagme á Instagram
Nemendafélag Menntaskólans á Egilsstöðum á Facebook.  


Annað efni og myndbönd

Umfjöllun sjónvarpsstöðvarinnar N4 í tilefni 40 ára afmælis ME.


Umfjöllun sjónvarpsstöðvarinnar N4 um skapandi greinar í ME. 


Umfjöllun N4 um Jón Inga, félagsfræðikennara sem kenndi í ME í 38 ár.


Kynningarfundur um ME fyrir forráðafólk (vor 2020).

 Hér má svo nálgast glærur frá grunnskólakynningum vorið 2022. 


Samfélagsmiðlar  

Endilega fylgstu með okkur á samfélagsmiðlum þar sem við leggjum metnað í að segja og sýna frá skólastarfinu og koma á framfæri ýmsum viðburðum, fræðslu og fréttum.


Spurt og svarað

Hvað eru margir nemendur í ME?

Haustið 2022 byrjuðu samtals 170 nemendur í dagskóla í ME. Fjöldi nemenda í dagskóla sveiflast á milli ára þar sem við útskrifum nemendur tvisvar á ári (í desember og maí) og svo eru alltaf einhverjar sveiflur í fjölda í árgöngum á svæðinu. Fjarnám í ME er gífurlega vinsælt, m.a. vegna spannakerfisins og er á milli 300-400 nemendur sem stunda fjarnám í ME á hverri spönn. Blönduðum nemendafjölda dagskóla- og fjarnema fylgja ákveðnir kostir. Annars vegar sá að nemendafjöldi í hverjum áfanga í dagskóla er hæfilegur og nemendur ættu því að fá góðu þjónustu og stuðning kennarans. Hins vegar er námsvefur skólans CANVAS, settur upp til að koma til móts við fjarnema sem dagskólanemar græða líka á, sbr. upptökur á efni, myndbönd o.fl.

Hvort er bekkjarkerfi eða áfangakerfi í ME?

ME er áfangakerfisskóli sem þýðir að þú ert skráir þig í áfanga einu sinni á önn út frá þinni braut og þínu áhugasviði. Þú ert með misjöfnum nemendahópi í hverjum áfanga og munt því kynnast stórum hópi nemenda á öllum aldri. Skólinn innritar þó nýnema í kjarnaáfanga (skylduáfanga á öllum brautum) fyrstu önnina í ME og því ert þú mestmegnis með nýnemum fyrstu önnina þína.

Hvað kostar að vera í ME?

Nemendur ME borga 10.000 kr á hverri önn. 8000 kr í innritunargjöld og 2000 kr í tölvugjöld. Nemendur ME eru síðan hvattir til að skrá sig í nemendafélagið (NME) og borga nemendafélagsgjöldin sem eru 6000 kr á önn. Með greiðslu nemendafélagsgjalda fá nemendur ýmis fríðindi í formi afslátta hjá fyrirtækjum innanbæjar sem utan og borga minna en aðrir á viðburði NME. Ef nemendur eru í síðan á heimavist þá bætist heimavistar- og mötuneytisgjald við þessar upphæð (sjá spurningu um kostnað heimavistar hér fyrir neðan eða hér).

Hvernig virkar spannakerfið?

Í ME er hvorri önn (haustönn og vorönn) skipti í tvennt; fyrri og seinni haustspönn og svo fyrri og seinni vorspönn. Á meðan nemendur í fullu námi í hefðbundnu annarkerfi eru skráð í um það bil 6 áfanga á önn og þurfa að sinna þeim öllum frá til dæmis ágúst-desember, einbeita ME-ingar sér bara að 3 fögum í einu á hverri spönn (8 vikur) og klára þau áður en þau byrja á 3 næstu. Mikil ánægja er meðal bæði dagskóla- og fjarnema með spannakerfið.

Hvernig fer námið fram?

Skóladagurinn hjá hinum hefðbundna ME-ingi kl. 9. Nemendur hitta sína fagkennara í hverju fagi 1x á dag í 55 mínútur í senn, í svokölluðum bundnum tímum (fagtímum). Hverju fagi sem nemandinn er skráður í, fylgja síðan 3-4 verkefnatímar, sem ætlast er til að nemendur nýti til að vinna í sínum verkefnum en skyldumæting er jafnfram í verkefnatíma eins og bundna tíma. Skóladagur ME-inga í fullu námi er þannig samfelldur (engin göt í töflu) og ef nemendur nýta tímann vel ættu þau að geta klárað sinn skóladag kl. 16 (kl. 15 á mánudögum og föstudögum). 

Dæmi um stundatöflu nemanda: 

Námsvefurinn CANVAS er í lykilhlutverki í námi ME-inga en þar má nálgast námsefni, verkefnalýsingar, samskipti við kennara en nemendur skila jafnframt sínum verkefnum í gegnum CANVAS. Bæði nemendur og kennarar hafa líst mikilli ánægju með námsvefinn en ME er eini framhaldsskóli landsins sem nýtir hann. Allir háskólar landsins kenna í gegnum CANVAS í sínu námi og kennslu. 

Hvernig er námsmat í ME?

Í ME er lögð áhersla á leiðsagnarmat en leiðsagnarmat byggir á því að leiðbeina nemendum á uppbyggilegan hátt um hvernig þeir geta bætt frammistöðu sína, íhugað eigin framfarir og metið nám sitt og vinnubrögð. Kennarar veita endurgjöf reglulega sem styðja á og efla hæfni nemenda til að takast á við námið. Í ME er ekki lengur mikið um viðamikil lokapróf og áfangar frekar unnir í símati þar sem námsmat er í gangi jafnt og þétt alla spönnina.

Hver eru inntökuskilyrðin inn í ME?

Í ME er tekið á móti hverju og einu ykkar þar sem þið eruð stödd og þið haldið áfram þaðan í átt að ykkar markmiðum. Ef þú ætlar þér að sækja um á stúdentsbrautum skólans þá þarftu að hafa lokið grunnskólaprófi með a.m.k. B í hæfnieinkunn í kjarnafögunum íslensku, ensku, stærðfræði og dönsku. Þeir nemendur sem ekki ná B í öllum fögum innritast inn á framhaldsskólabraut 2 þar til þeir hafa lokið upprifjunaráfönga/um (1. þreps áföngum) í þeim fögum. Nemandi getur þó verið í áföngum á stúdentsbrautum samhliða upprifjunaráfanganum/áföngunum. Þeir nemendur sem innritast sem þurfa að styrkja undirstöðurnar sínar í mörgum fögum og hafa jafnvel verið í einstaklingsmiðuðu námsefni í mörgum fögum grunnskólans innritast inn á framhaldsskólabraut 1. Nemendur sem hafa tilgreind greiningargögn innritast inn á starfsbraut. Sjá frekari upplýsingar um inntökuskilyrði.

Hvað eru línur og þarf ég að velja mér línu á stúdentsprófinu mínu?

Stúdentsprófin frá ME eru 206 einingar. Tæplega helmingur þeirra eininga (eða 101 eining) samanstendur af skyldufögum allra brauta, eða svokallaður "kjarni". Ofan á kjarnafögin bætist síðan brautarkjarni hverrar brautar (40-60 einingar, allt eftir braut). Restin upp í þessar 206 einingar er síðan "opið val". Þessu vali er annaðhvort hægt að raða saman eftir áhugasviði og stefnu hvers og eins (kallast opin lína) eða nemendur velja sér leiðbeinandi línur í vali. En línurnar voru settar saman til að undirbúa nemendur fyrir frekara háskólanám á viðkomandi sviðum. Hafa ber þó í huga að línurnar eru einungis leiðbeinandi. Inntökuviðmið og jafnvel skilyrði inn í ákveðnar háskólanámsleiðir breytast ört og því mjög mikilvægt að nemendur hafi mismunandi skilyrði í huga þegar þau setja saman áfanga í vali til stúdensprófs. Stúdentspróf af náttúrufræðibraut t.d. veitir ekki sjálfkrafa inngöngu í allar námsleiðir á verk- og náttúruvísindasviði Háskóla heldur skiptir máli hvaða áfangar liggja þar að baki (og einingafjöldi á vissum þrepum o.s.frv.). 

Línurnar á brautum ME eru eftirfarandi: 

Félagsgreinabraut

  • Almenn félagsgreinalína
  • Heilbrigðislína
  • Íþróttalína
  • Málalína
  • Tæknilína


Listnámbraut

  • Hönnunarlína
  • Íþróttalína
  • Myndlistarlína
  • Málalína
  • Tónlistarlína
  • Tæknilína


Náttúrufræðibraut

  • Almenn náttúrufræðilína
  • Heilbrigðislína
  • Íþróttalína
  • Málalína
  • Tæknilína
  • Verkfræðilína

Get ég útskrifast af tveimur brautum?

Einhverjir nemendur hafa útskrifast með stúdentspróf af tveimur brautum. Flestir nemendur með breið áhugasvið hafa þó ákveðið að taka opið val og flétta þannig nám tveggja brauta saman. Slík markmið væri gott að ræða við náms- og starfsráðgjafa eða áfangastjóra skólans í byrjun skólagöngu.

Hvenær á maður að hafa lokið stúdentsprófi?

Þrátt fyrir að fólk tali oft um að stúdentsprófið taki 3 ár þá er í raun enginn "réttur" tími til að klára stúdentsprófið hér í ME og öðrum áfangakerfisskólum. Nemendur hér eru í námi á sínum hraða og út frá sínum markmiðum. Ef nemendur eru með B í öllum kjarnagreinum við lok grunnskóla er hægt að stefna á að klára stúdentspróf á 3 árum ef nemandinn sinnir náminu vel. Flestir nemendur ME klára stúdentsprófið á 3-4 árum, sumir taka sér lengri tíma, allt eftir markmiðum og aðstæðum hvers og eins.

Ég stefni í verk- eða starfsnám, get ég byrjað t.d. í ME og fært mig síðan yfir í verkmenntaskóla?

Já, það gæti verið góð byrjun fyrir þig. Mörg sem til að mynda búa hér á svæðinu ákveða að hefja nám við ME þó svo að leiðin liggi áfram í verk- eða starfsnám. Í ME er hægt að ljúka öllum helstu bóklegu námsgreinum inn á verk- og starfsnámsbrautum, svo sem eins og íslensku, ensku, stærðfræði, dönsku, lífsleikni, íþróttum, grunnteikningu o.fl. Mikilvægt er þó að ræða slík markmið við náms- og starfsráðgjafa eða áfangastjóra til að fá staðfest að þeir áfangar sem þið takið í ME verði metnir inn í fyrirhugað nám/skóla annarsstaðar.

Fæ ég að ráða miklu um innihald námsins?

Þú velur braut eftir áhugasviði og getur ákveðið að halda þínu vali opnu (allt að 65 einingar á stúdentsbrautum/80 einingum á opinni stúdentsbraut sem er í boði fyrir fjarnema) og valið eftir áhuga og stefnu. Sjá ítarlegra svar í spurningu hér að ofan um línur. Í ME er mjög fjölbreytt áfangaframboð og öll ættu að geta fundið eitthvað við hæfi. Hér getur þú skoðað áfangaframboð ME.

Ef ég æfi íþróttir utan skóla má ég þá sleppa skólaíþróttum?

ME er heilsueflandi framhaldsskóli og útskrifast nemendur með 8 einingar í bók- og verklegum íþróttum til stúdentsprófs. Allir nemendur ME eru því í íþróttum á skólatíma. Í skólaíþróttum stendur ýmislegt til boða og eru nemendur hvött til að ræða slíkt við sína íþróttakennara. Nemendur geta þó valið sér að mæta í íþróttaakademíur í stað hefðbundinna skólaíþrótta en hvoru tveggja körfubolta- og knattspyrnuakademíur eru kl. 8 á morgnana 2x í viku. Einnig geta iðkendur í fimleikum skráð sig í fimleikaakademíu og stundað hana í stað hefðbundinna skólaíþrótta. Nánari upplýsingar um akademíur má nálgast hjá íþróttakennurum, áfangastjóra eða skólameistara. 

Ég er að þjálfa yngri iðkendur í íþróttum, get ég fengið það metið til eininga?

Já, nemendur geta að hámarki fengið 4 einingar metnar fyrir aðstoðarþjálfun. Einnig metum við Þjálfunarnámskeið/stig ÍSÍ til eininga. Hafðu samband við áfangastjóra skólans fyrir frekari upplýsingar.

Get ég fengið tónlistarnám metið til eininga í ME?

Já, nemendur í ME geta fengið tónlistarnám sitt úr tólistarskólum landsins metið. Fullgilt grunnpróf í hljóðfæraleik er metið til 10 eininga og miðpróf til 14 eininga. Nemendur í framhaldsnámi í tónlist við Tónlistarskólann á Egilsstöðum geta einnig tekið tónlistarlínu inná sinni braut.

Er tekið tillit til námserfiðleika nemenda, t.d. lesblindu og ADHD?

Vissulega er tekið tillit til styrk- og veikleikra alla nemenda en mikilvægt er að ræða við aðila Nemendaþjónustu ME strax í upphafi skólagöngu svo hægt sé að finna sameiginlega út úr því hvers konar aðstoð og úrræði skila bestum árangri.

Er boðið upp á einhverja námsaðstoð, t.d. aukatíma?

Í ME fylgja 3-4 verkefnatímar hverjum fagi sem nemandinn er skráður í og í verkefnatímum eru kennarar til taks til að aðstoða nemendur við að vinna sín verkefni. Nemendur á starfsbraut og framhaldsskólabrautum skólans getur staðið til boða einstaklingsnámsaðstoð hjá stuðningsfulltrúum og kennslustjórum brautanna. Einnig geta allir nemendur skólans leitað til náms- og starfsráðgjafa skólans til að fá aðstoð við tímastjórnun, vinnulag, námstækni og fleira. Leitið til Nemendaþjónustu ME eða kennara fyrir nánari upplýsingar um námsaðstoð. 

Hverjir eru kostirnir við að vera á heimavist í ME?

Kostirnir við að vera á heimavist í samanburði við að keyra til og frá skóla úr töluverðri fjarlægð frá heimili, eru fjölmargir.

  • Heimavistin í ME er til beint á móti kennsluhúsnæði skólans. Þar að auki eru nokkur skref yfir í íþróttahúsið og sundlaugina. Öll þjónusta innanbæjar er einnig í göngufjarlægð. 
  • Kolefnissporið verður svo mikið minna!
  • Raunkostnaður fyrir heimavist og mötuneyti er einungis um 25.000 kr á mánuði þar sem nemendur geta sótt um jöfnunarstyrk og húsaleigubætur. 
  • Öll á heimavist fá rafænan lykil svo nemendur stjórna (og bera ábyrgð á) sér og sínum ferðum sjálf.
  • Þroskandi og valdeflandi.
  • Félagslífið! Að vera á heimavist opnar möguleikann á þú stækkir tengslanetið þitt margfalt! Við hvetjum þig líka til að skrá þig í 2 manna herbergi, en það er líka kjörið tækifæri til að kynnast nýju fólki og efla og þroska félags- og samskiptafærni þína. 

Hver er kostnaðurinn við að vera á heimavist?

Kostnaðurinn við að vera í heimavist er í raun lygilega lítill þegar allt kemur til alls. Mánaðarlegur raunkostnaður er í kringum 25.000 kr fyrir bæði húsnæði og 5 daga fæði (morgunmatur, hádegisverður og kvöldmatur). 

Hvernig er félagslífið í ME?

Félagslífið í ME er fjölbreytt og skemmtilegt og tekur mið af samsetningu og áhuga nemendahópsins hverju sinni. Nemendafélag ME, undir stjórn nemendaráðs ME sinnir mikilvægu hlutverki í að móta og þróa félagslífið í skólanum. Félagslífið samanstendur bæði af föstum viðburðum og samskiptum og hittingum nemenda skólans innan sem utan skólans, eins og á böllum og dansleikjum, miðvikudagsviðburðum upp á sal skólans, árshátíðar skólans o.fl. Undir nemendafélaginu eru undirfélög og hópar eins og:

  • Leikfélag ME (LME) sem setur upp leiksýningu a.m.k. einu sinni á skólaári;
  • Tónlistarfélag ME (TME) sem skipuleggur m.a. tónleika og Barkann, undankeppni Söngkeppni framhaldsskólanna;
  • Málfundarfélag ME (MME) sem heldur utanum þátttöku skólans og æfir fyrir rökræðukeppnina Morfís sem og Gettu betur;
  • Íþróttafélag ME (ÍME) sem heldur utanum ME bolta og viðburði í íþróttahúsinu 2x í viku og skipuleggur og heldur utanum íþróttakeppnirnar Bæjarsins bestu og Áramótin auk Ólympíuleika Austurlands (í samstarfi við VA og FAS). Undir ÍME er einnig virkt rafíþróttafélag en ME átti lið i úrslitum FRÍS (framhaldsskólaleikanna í rafíþróttum) vorið 2022 þar sem keppt var í Rocket Leage, FIFA og CS:GO.

Við skólann eru/hafa einnig verið starfandi fleiri félög eins og Kindsegin (hinseginfélag ME), FeME (Femínistafélag ME), BME( Bindindismannafélag ME), LaME (Listafélag ME), KME (Kvikmyndaklúbbur), GourME (sketsahópur), AniME (áhugafólk um Anime myndasögur, þætti, myndir o.fl), D&D (Dungeons and dragons spilahópur) o.fl.

Nemendaráð skólans tekur vel í allar nýjar hugmyndir og hvetur alla nemendur til að finna sér félög og hópa eða stofna nýja undir hatti NME.

Hvað eru mörg böll á ári á vegum NME?

Yfirleitt eru 5-6 böll yfirskólaárið á vegum NME.

  • Nýnemaball
  • Þemaball
  • 1. des ball (árshátíð ME)
  • Barkaball
  • Lokaball