45 nýstúdentar útskrifaðir frá ME

Útskrift við ME vorið 2020
Útskrift við ME vorið 2020

45 nýstúdentar voru útskrifaðir úr ME í dag í Valaskjálf. Útskriftin fer án efa í sögubækurnar þar sem hún var afar óhefðbundin. Eingöngu stúdentarnir voru viðstaddir ásamt skólameistara og áfangastjóra og tæknimönnum. Gestir fylgdust með í beinni útsendingu á Facebook.

Þrátt fyrir óvenjulega útskrift, var hún með hefðbundnum hætti og afar falleg. Signý Eir Guðmundsdóttir flutti ávarp nýstúdents og Arnar Sigbjörnsson fráfarandi áfangastjóri ME flutti ávarp starfsmanna.

21 stúdent útskrifaðist af félagsgreinabraut, 14 af náttúrufræðibraut, 7 af listnámsbraut, 3 af framhaldsskólabraut, 3 af starfsbraut og 3 af málabraut. Þess má geta að 6 nemendur útskrifast af tveimur brautum.

Dúx skólans er Jófríður Úlfarsdóttir en hún útskrifast með 9,81 í meðaleinkunn. Við óskum henni hjartanlega til hamingju með þennan flotta námsrárangur. Jófríður Úlfarsdóttir

Veittur var fjöldi viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og þátttöku í félagsstörfum. Í fyrsta skipti var veitt viðurkenning fyrir lokaverkefni. Nemendur skólans leggja mikinn metnað í lokaverkefni sín sem núna er hægt að skoða hér á heimasíðu skólans. Við hvetjum alla til að skoða þau ef því er ekki þegar lokið. Verkefnin eru afar fjölbreytt og í kynningunum kemur glögglega fram útsjónarsemi, frumkvæði og lausnamiðuð nálgun þar sem nemendur nýta hæfni sem þeir hafa tileinkað sér á námstímanum.

Rótarýklúbbur Héraðsbúa veitti viðurkenningu fyrir lokaverkefni og var það verkefni Elísu Petru Benjamínsdóttur Bohn sem var valið. Þetta er glæsilegt verkefni sem tengist samfélagi okkar og dregur fram dulið vandamál sem hefur verið vanrækt. Það veitir innsýn í stöðu ungra stúlkna sem glíma við einhverfu. Verkefnið er sett fram af einlægni og hreinskilni. Með þessari viðurkenningu vill Rótarýhreyfingin sýna í verki áhuga fyrir hagsmunum ungs fólks og hvernig hreyfingin getur boðið ungmennum ýmsa möguleika á að mennta sig og sjá heiminn í öðru ljósi.

Starfsmann skólans gátu ekki verið viðstödd útskrift eins og venja er vegna þess ástands sem ríkir. Til að koma hamingjuóskum engu að síður til skila voru kveðjurnar rafrænar í ár. Kveðjurnar má sjá á Facebook síðu ME eða hér.

Nokkrar myndir frá útskriftinni má finna hér