Brautskráðir ME-ingar hlutu styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta HÍ

Háskóli Íslands fagnaði upphafi nýs skólaárs með því að veita 37 nýnemum styrki úr Afreks- og hvatningarsjóði skólans við hátíðlega athöfn þann 30. ágúst. Styrkþegarnir koma úr 15 framhaldsskólum víða um land og innritast í hátt í 30 mismunandi námsleiðir. Úr hópi þeirra voru tveir ME-ingar, þær Hafrún Alexia Ægisdóttir og Ragnhildur Elín Skúladóttir. 

Um þær stöllur segir í samantekt á styrkþegum á vef HÍ:

Hafrún Alexia Ægisdóttir brautskráðist frá Menntaskólanum á Egilsstöðum síðastliðið vor og hlaut viðurkenningar fyrir skólasókn, góðan námsárangur á stúdentsprófi og störf að félagsmálum, en hún var m.a. formaður nemendafélags skólans á liðnum vetri. Hafrún hefur hafið nám í geislafræði við Háskóla Íslands.

Ragnhildur Elín Skúladóttir brautskráðist frá Menntaskólum á Egilsstöðum í fyrravor. Hún var semidúx skólans og hlaut viðurkenningar fyrir íslensku, félagsstörf og skólasókn en hluta menntaskólaáranna dvaldi hún sem skiptinemi í Frakklandi. Hún á að baki langt nám á bæði fiðlu og í söng og tók m.a. þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna fyrir hönd Menntaskólans á Egilsstöðum árið 2018. Á liðnum vetri starfaði hún sem au-pair í Brussel og vann einnig sem sjálfboðaliði og aðstoðaði heimilislausa og flóttafólk í borginni. Ragnhildur Elín hefur hafið nám í mannfræði.

Hjartans hamingjuóskir með þetta Ragnhildur og Hafrún, við erum að sjálfsögðu agalega stolt af ykkur sem og öllum okkar nemendum. 

(Myndir eru fengnar af vef HÍ).