Ína Berglind og TME á meðal flytjenda á tónleikum Tónleikafélags Austurlands

Á laugardag stigu tónlistarkonan og ME-ingurinn Ína Berglind Guðmundsdóttir og nemendur úr Tónlistarfélagi ME á stokk á góðgerðartónleikum í Valaskjálf. Tónleikarnir báru heitið Íslenskt popp og rokk og voru Stebbi Jak og Dagur Sigurðsson í forgrunni flytjenda ásamt hljómsveitinni Óvissu sem samanstóð af tónlistarfólki af Austurlandi. Allur ágóði tónleikanna, sem Bjarni Haraldsson skipulagði undir merkjum Tónleikafélags Austurlands, rennur í geðheilbrigðismál á Austurlandi.

Ína Berglind hóf tónleikana og flutti tvö frumsamin lög á sinn einstaka hátt, Tilgangslausar setningar (sem hún flutti jafnframt þegar hún sigraði Samfés fyrr á árinu) og nýtt lag sem ber heitið Nema þú.

Því næst tóku nemendur úr Tónlistarfélagi ME við og fluttu þrjú lög; Án þín eftir Trúbrot sem Dögun Óðinsdóttir söng, Kona eftir Súellen sem Sebastían Andri Kjartansson söng og Pamela eftir Dúkkulísurnar sem Sigurásta Guðbjörg Ólafsdóttir söng.

Í hljómsveit TME voru:
Aron Már Leifsson (gítar)
Auðun Lárusson Snædal (bassi)
Benedikt Árni Pálsson (gítar)
Elísabet Arna Gunnlaugsdóttir (trommur)
S. Svandís Hafþórsdóttir (gítar/bassi)
Unnar Aðalsteinsson (píanó/hammond)

Dögun ásamt hljómsveit TMESigurásta ásamt hljómsveit TMEÍna Berglind á tónleikum

Fyrr í haust stóðu TME fyrir tónleikum í Valaskjálf af svipuðum toga sem báru heitið "Íslenskir tónleikar" og vöktu þeir mikla athygli.
Stjórn TME situr ekki auðum höndum lengi því Barkinn, söngkeppni TME verður haldinn miðvikudaginn, 13. desember í Sláturhúsinu - takið daginn endilega frá!