Gleðivika í ME

Vikuna 15.-19 mars fer fram árleg Gleðivika í ME, en gleði er ásamt virðingu og jafnrétti eitt af gildum skólans og verðskuldar sannarlega heila viku af hátíðarhöldum.

 Skólabrags- og heilsueflingarnefnd sem ber hitann og þungann af dagskrá vikunnar sem er fjölbreytt og lífleg eins sjá má.

Gleðivika var sett með pompi og prakt með fjöldasöng í morgun, en þar léku Árni Ólason skólameistari og Marteinn Lundi Kjartansson undir fjörugum gleðisöngvum.

Á morgun þriðjudag verður Þakklætissmiðja í Engidal en þar munu Hildur Bergsdóttir félagsráðgjafi og Nanna Imsland náms- og starfsráðgjafi spjalla um þakklæti og tilfinningar því tengdu og þátttakendur munu vinna með viðfangsefnið á ýmsan hátt. Síðdegis eða kl 15:10 verður svo sjálfseflingarspilamennska og súkkulaði í Engidal, en þá verða dregin fram æsispennandi spjallJenga, UnoTrúnó og sitthvað fleira, auk þess sem súkkulaði verður á boðstólnum.

Á miðvikudag verður brugðið á leik með páskaeggjaleit og plokk í nágreni skólans kl 15:10, auk þess verða grillaðir sykurpúðar og sumarfílingur í algleymi á skólalóðinni.

Fimmtudagurinn verður helgaður hugguleigheitum og hamingju á Bókasafni skólans, þar verður boðið upp á heitt súkkulaði og gúmmulaði, spil, liti og kósýheit allan daginn. Stefán Bogi Sveinsson ljóðskáld og lífskúnstner ásamt Kötlu Torfadóttur verða með húslestur í hádeginu kl 12:30 og lesa gleðitexta með tilþrifum. Í lok skóladags kl 15:10 verður slökunar- og núvitundarstund á safninu þar sem gott verður að láta líða úr sér eftir daginn.

Á föstudag eru nemendur og kennarar hvattir til að mæta í litríkum fötum og fylgihlutum í skólann. Kleinuhringir og KætiKahoot verður á pullunum í frímínótum kl 10 og rúsínan í pylsuendanum verður svo heimsókn geðþekku skólakanínunnar Dúsks sem býður í klapp og knús í árstíðarskotinu undir stiganum í heimavistarhúsinu.

Samhliða öllu þessu fjöri eru nemendur hvattir til að fylgjast með samfélagsmiðlum skólans en þar verður m.a. kynnt hamingjuapp dagsins sem er um að gera að prófa og pæla í.