Hluti af námi allra nemenda í ME er að læra sögu. Í áfanganum SAGA1MF fóru nemendur í heimsókn á Minjasafnið á Egilsstöðum fyrir stuttu síðan. Eyrún Hrefna tók vel á móti hópnum. Tilgangur ferðarinnar var að nemendur lærðu um sjálfbærni með því að læra um sjálfsþurftarbúskap í bændasamfélaginu. Í sjálfsþurftarbúskap sparaði fólkið og gernýtti allt af skepnunum og úr umhverfi sínu án þess að ganga á auðlindir kynslóða framtíðarinnar. Nemendur völdu sér svo hlut á safninu og skrifuðu um hann stutta ritgerð.
Gaman er að segja frá því að í áfanganum SAGA2ÁN er einnig farið á safnið, en þá er það Héraðsskjalasafnið sem er heimsótt. Þar tekur Stefán Bogi á móti hópunum og leggur fyrir þau skemmtilegt verkefni þar sem þau kynnast safninu í gegn um leitarverkefni. Á safninu eru fleiri en eitt safn, og kynnast nemendur í þessu verkefni skjala-, ljósmynda-, og fræðibókasafninu.
Samstarf við fyrirtæki og stofnanir í nærsamfélaginu er skólanum afar mikilvægt og þökkum við kærlega fyrir góðar móttökur.