Jafnréttis- og mannréttindavika ME er haldin hátíðleg þessa vikuna. Það er ýmiskonar uppbrot í skólastarfinu sem miðar að því að opna augu okkar allra fyrir jafnréttis- og mannréttindamálum.
Í dag, mánudag var byrjað á því að nemendur tóku stutt próf sem er aðgengilegt á heimasíðu kvennaathvarfsins. Það snýr að því að átta sig á mismunandi stigum ofbeldis og hvernig megi átta sig á einkennum þess. Hvetjum öll til að taka prófið (aðgengilegt hér).
Á morgun, þriðjudag munu kennarar sýna nemendum heimasíðu Amnesty International og sýna hvernig hægt er að skrifa undir hina ýmsu málstaði sem miða allir að því að bæta mannréttindi í heiminum. Engin skylda er að skrifa undir, en kynntur er möguleikinn og hafa þannig áhrif á líf hópa og einstaklinga sem verða fyrir mannréttindabrotum. Þá verður einnig sýndur fyrsti þátturinn af þættinum "Hatur" í 6. blokk. Þátturinn verður sýndur í fyrirlestrasalnum (nemendur fá fyrst mætingu í sínum verkefnatíma).
Á miðvikudaginn verður 2. þáttur úr þáttaröðinni "Hatur" sýnt í 6. blokkinni og áhugasamir geta fengið mætingu í sínum verkefnatíma og mætt svo á sýninguna. Mögulega verður einnig sýnt viðtal við rússneskan stjórnarandstæðing sem hefur lifað af tvær eitranir og fékk 25 ára fangelsisdóm í öryggisfangelsi í Síberíu fyrir að gagnrýna innrás Rússa í Úkraínu. Hann fékk frelsi í fangaskiptum í fyrra. Á miðvikudaginn verður einnig bleiki dagurinn, til stuðnings þeim sem lifa með krabbameini eða hafa gengið í gegn um það. Hvetjum öll til að mæta í bleiku þennan dag, eða bera bleiku slaufuna.
Fimmtudaginn verður 3. þáttur af "Hatur" sýndur í 6. blokk í fyrirlestrasalnum. Þá verður einnig í gangi mannréttindaratleikur sem nemendur mega gjarnan fara í ef þeir kjósa það frekar en að horfa. Eins og áður fá nemendur fyrst mætingu í verkefnatíma áður en þeir mæta í fyrirlestrasalinn.
Föstudaginn 24. október - kvennafrídaginn - verður jafnréttis - Kahoot á pullunum í 10-frímínútunum. Reynir stjórnar þessum skemmtilega viðburði.
Nemendaráð verður með kynningu á Sjúk ást leiknum og í Dyrfjöllum verður málsháttarverkefni í gangi alla vikuna þar sem íslenskum málsháttum verður snúð í hin ýmsu kyn.
Hvetjum öll til að taka þátt í þeim viðburðum sem staðið verður fyrir.