Nemendaþjónusta ME hlýtur viðurkenningu

Nemendaþjónusta ME þær Nanna, Bergþóra og Hildur
Nemendaþjónusta ME þær Nanna, Bergþóra og Hildur

Rótarý á Íslandi afhenti Nemendaþjónustu Menntaskólans á Egilsstöðum viðurkenningu og styrk að upphæð 500 þúsund krónur um síðastliðna helgi. Við erum afar stollt af Nemendaþjónustunni okkar og óskum þeim til hamingju með þetta.

Þetta segir á síðu Rótarý á Íslandi um viðurkenninguna ásamt nokkrum orðum frá Nönnu Imsland, náms- og starfsráðgjafa ME

Nemendaþjónusta Menntaskólans á Egilsstöðum: Starf nemendaþjónustu Menntaskólans hefur vakið athygli hjá lesblindum. Þar hefur verið veitt ráðgjöf með áherslu á nýtingu upplýsinga- og samskiptatækni fyrir lesblinda. Það hefur meðal annars skilað sér í námskeiðum fyrir nema við Menntaskólann á Egilsstöðum sem eiga erfitt með lestur, nokkuð sem kallað hefur verið „lesblindusmiðja.“ Þar er veitt fræðsla um lesblindu, fjallað um einkenni, líðan og úrræði og notkun hjálpartækja. Kynntar hafa verið lausnir með ólík notagildi frá ýmsum samtökum og fyrirtækjum þannig að flestir ættu að finna það sem þeim nýtist. Þetta starf Nemendaþjónustu Menntaskólans á Egilsstöðum er mikilvægt samfélagverkefni á sviði mennta fyrir ungt fólk, verkefnið er nýstárlegt og framúrskarandi framtak sem getur verið öðrum menntastofnunum fyrirmynd og hvatning. Verkefnið getur einnig orðið mikilvægt framlag í þágu þeirra fjölmörgu einstaklinga sem glíma við lesblindu í íslensku samfélagi. Styrkur kr. 500.000,-

Nanna Halldóra Imsland, náms- og starfsráðgjafi Menntaskólans á Egilsstöðum (ME) lýsti starfinu nánar:

„Hlutverk Nemendaþjónustunnar í ME er að vera málsvarar og trúnaðarmenn nemenda innan skólans og standa vörð um velferð þeirra. Við leggjum áherslu á að mæta öllum nemendum þar sem þeir eru staddir og finna leiðir til að dvölin í skólanum verði ánægjuleg og að fjölbreyttur nemendahópurinn upplifi valdeflandi umhverfi.

Áhersla er lögð á einstaklingsráðgjöf og samvinnu við starfsfólk innan sem utan skólans, hópráðgjöf og námskeiðahald; lesblindumsmiðja, ADHD smiðja, kvíðastjórnunarnámskeið, námstækni- og tímastjórnunarsmiðjur, áfangaval út frá áhuga og framtíðarsýn o.fl. Síðustu ár hafa hóparnir, Sjálfsefling & súkkulaði og útivistar- og reynslunámsverkefnið F:ire and Ice vakið athygli, en báðir stuðla að sterkari sjálfsmynd og aukinni samskiptafærni nemenda. Nemendaþjónustan leitast við að nýta fjölbreyttar leiðir til að ná til nemenda, svo sem í gegn um samfélagsmiðla og gagnabanka á heimasíðu.

„Við teljum það mikil forréttindi að vinna með jafn fjölbreyttu og frábæru fólki og er í ME. Sveigjanlegt og hvetjandi starfsumhverfi ásamt jákvæðni og góðum undirtektum stjórnenda, samstarfsfólks og nemenda hafa lagt grunn að framþróun nemendaþjónustunnar og efla okkur til áframhaldandi nýsköpunar í þjónustu við nemendur.

Nemendaþjónusta ME samanstendur af Bergþóru áfangastjóra, Hildi félagsráðgjafa og náttúrumeðferðaraðila og Nönnu náms- og starfsráðgjafa. Við vinnum saman í lausnamiðuðu teymi með mismunandi styrkleika en eigum sameiginlega jákvæðni, sveigjanleika og réttlætiskennd.“

(tekið af síðu Rótarý á Íslandi)