PREFAB / FORSMÍÐ listbúðir ME í Sláturhúsinu

Í tengslum við haustsýningu Skaftfells - Miðstöðvar myndlistar á Austurlandi PREFAB/FORSMÍÐ var boðið upp á listbúðir fyrir nemendur á listnámsbraut við Menntaskólann á Egilsstöðum. Farið var í vettvangsferð að skoða og upplifa sýninguna og til Skógarafurða ehf. á Ytri-Víðivöllum í Fljótsdal þar sem nemendur fengu fræðslu um starfsemina þar og efnivið í eigin listsköpun. Í framhaldi af því hönnuðu nemendur sín eigin hús sem sýnd eru nú í Sláturhúsinu, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs.

Sýningin opnar föstudaginn 2. október kl. 14:00 og verður svo opin á almennum opnunartíma frá kl. 11 til 17 fram til 9. október. Hægt er að sjá frekari upplýsingar á viðburði sýningarinnar á Facebook

Listbúðastjóri er Guja Dögg Hauksdóttir, arkitekt og rithöfundur en hún er einnig sýningarstjóri sýningarinnar sem nú stendur yfir í Skaftfelli á Seyðisfirði. Ólöf Björk Bragadóttir, kennslustjóri listnámsbrautar ME og Bylgja Lind Pétursdóttir margmiðlunarkennari skólans aðstoðuðu hana við að leiðbeina nemendum í listbúðunum sem stóðu yfir í eina viku.