Verkfall kvenna og kvára á þriðjudag

Þriðjudaginn 24. október eru konur og kvár í ME og um land allt, hvött til að leggja niður launuð sem ólaunuð störf, allan daginn eins og konur gerðu fyrst á kvennaári Sameinuðu þjóðanna árið 1975. Sá viðburður var sögulegur og um 90% kvenna á Íslandi lögðu niður störf þann dag til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir samfélagið. 

Þrátt fyrir áratugalanga baráttu búum við enn í samfélagi þar sem langlífasti og útbreiddasti faraldurinn sem við eigum við að etja er kynbundið ofbeldi, ásamt því að framlag kvenna til samfélagsins er gróflega vanmetið. Hver rannsóknin á fætur annarri sýnir fram á sláandi tölur um misrétti og ofbeldi, en viðbrögðin eru lítil sem engin. Við sem samfélag virðumst orðin samdauna stöðunni og teljum að jafnrétti komi með tímanum — jafnvel þó vitað sé að það muni a.m.k. taka heila ævi. (Kvennafrí.is, 2023).

Á fjórða tug samtaka kvenna, hinsegin fólks og hreyfinga launafólk blæs því aftur til kvennaverkfalls. Samtaka getum við breytt samfélaginu og knúið fram jafnrétti. Samstöðufundir og viðburðir verða haldnir um allt land, m.a. hér fyrir austan á Seyðisfirði, í Neskaupstað og á Hótel Héraði á Egilsstöðum. Nánari upplýsingar má finna hér. Fjarvera frá vinnu þennan dag verður ekki dregin af launum kvenna og kvára í ME og kvár og kvenkyns nemar munu þar að auki ekki fá skráðar fjarvistir.

Vegna verkfallsins verður skert kennsla og þjónusta í ME þennan dag. T.d. verður starfsfólk í mötuneyti skólans í verkfalli og því hvorki hádegis- né kvöldmatur. Að öðru leyti er kennsla í ME samkvæmt stundatöflu.

 

Heimildir: 
Kvennafrí.is. (2023). Barátta í 48 ár. https://kvennafri.is/um-kvennaverkfallid/
Mynd: Ari Kárason / Ljósmyndasafn Reykjavíkur