Eflandi óbyggðaferð lokið

F:IRE&ICE Útivistarhópur ME er nú kominn heilu og höldnu til byggða eftir velheppnaða ferð um Víknaslóðir en hópurinn dvaldi í eyðivíkum ásamt írskum ungmennum frá YMCA í Cork og Cobh, en ferðin var hluti af Eramsus+ verkefni um útiveru og sjálfseflingu.

Segja má að ungmennin okkar hafi fengið flestar tegundir af veðri þar sem þau þræddu víkurnar eina af annarri, en þau héldu ótrauð áfram hvort heldur sem var í svartaþoku eða sólskini. Hópurinn gekk frá Borgarfirði og yfir í Breiðuvík, þar næst til Húsavíkur þar sem þau dvöldu auka dag, heimsóttu Húsavíkurkirkju og -fjöru, héldu því næst yfir til Loðmundarfjarðar og að lokum um Kækjuskörð aftur til Borgarfjarðar. Í lokin átti hópurinn saman tvo daga á Eiðum þar sem ýmislegt var brallað; siglt á Eiðavatninu og spreytt sig á þjóðaríþróttinni undir stjórn Þórodds Helgasonar og vasks glímufólks úr Val á Reyðarfirði sem kenndu réttu handtökin. Sannarlega unnust sigrar jafnt stórir sem smáir enda bauð umhverfið og verkefnið sjálft uppá ótal möguleika til að uppgötva og efla eigin styrkleika og samvinnuhæfni.

Þegar nemendur drógu saman lærdóm sinn af verkefninu kom meðal annars fram að:

    Ég er miklu öflugri félagslega eftir að hafa tilheyrt ættbálkinum okkar.

    Ég þarf ekki að vera sú sem talar ekki við annað fólk.

    Það er gaman að vera í hópi... með fólki sem maður þekkir, treystir og þykir vænt um.

    Ég náði að sigrast á hlutum sem ég hélt ég myndi aldrei ráða við.

    Ég fór að hugsa um að það skiptir líka máli hvernig mér líður, ekki bara hvernig öllum hinum líður.

    Öll höfum við okkar djöful að draga og það er allt í lagi.

    Klisjan ,,Þú ert ekki einn“ hafði enga merkingu fyrir mér fyrr en í F:ire&ice þá hafði það raunverulega þýðingu.

    Ég hef lært svo ótrúlega mikið um vináttu og tengslamyndun.

    Ég hef lært að vera ég og að það er bara mjög gott að vera ekki eins og ,,venjulegt fólk“.

    Ég skipti máli og á minn stað í samfélaginu, ég vissi það ekki áður.

    Þetta hefur styrkt sjálfstraustið mitt mjög mikið og hvatt mig til að fara mínar eigin leiðir.

    Það er gott og gaman að vera úti....í allskonar veðri, allavega þegar félagsskapurinn er góður.

    Hvað náttúran er ótrúleg og margt fallegt þar þegar maður opnar augun fyrir því.

Gangan langa um Víknaslóðir var lokahnykkurinn á verkefninu F:ire&Ice og samstarfi við írsku ungmennasamtökin. Eftir situr dýrmæt reynsla, seigla sem munar um, vináttusambönd og ótal magnaðar minningar.

YMCA, UÍA, Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs, Evrópu unga fólksins og öllum þeim fjölmörgu foreldrum og öðrum velunnurum sem hafa lagt okkur lið færum við hjartans þakkir fyrir stuðning og hvatningu.

Í vetur verður í boði útiveru- og sjálfsstyrkingaráfangi með svipuðu sniði hér í ME undir yfirskriftinni Eldur&Ís en hann mun eingöngu fara fram í austfirskri náttúru enda af nógu að taka þar.

Hér má finna nánari upplýsingar og umsóknareyðublað fyrir áhugasöm um Eldur & Ís https://www.me.is/is/frettir/eldur-og-is-sjalfsefling-utivera-og-aevintyri