Eldur&Ís - sjálfsefling, útivera og ævintýri!

Eldur&Ís - Útivist og sjálfsefling, er 5 eininga útivistaráfangi við Menntaskólann á Egilsstöðum sem nær hann yfir alla haustönn 2022.

Útivistaráfanginn hefur þá sérstöðu að megináherslur hans eru á að efla sjálfsþekkingu nemenda, trú á eigin getu, samskiptahæfni og tengsl við náttúruna og sjálfan sig. Áfanginn fer að mestu fram utandyra og á köflum utan hefðbundins skólatíma.

Hugmyndafræði áfangans byggir á náttúrumeðferð, reynslunámi, jákvæðri sálfræði, styrkleikaþjálfun, listrænum nálgunum, áskorunum og ævintýrum.

Áfanginn á sér forsögu í verkefninu F:ire&ice, sem var hluti af Eramsus+ samstarfi ME, UÍA og írskra ungmennasamtaka, og var í gangi við skólann undanfarin 3 ár, en hópur úr verkefni er einmitt um þessar mundir að ganga Víknaslóðir. Einhverjir hafa sjálfsagt séð svipmyndum af þeirri vegferð bregða fyrir á samfélagsmiðlum skólans. Að þessu sinni mun áfanginn einungis fara fram í ME og á Austurlandi enda feiki nóg af fallegri náttúru og ævintýrum hér heima fyrir. Áherslur og megin uppbygging áfangans er þó sömu og áður.

Eldur&Ís felur í sér:

       -Útivistarnámskeið í ME þar sem unnið verður með útivist og sjálfseflingu.

       -Námskeiðið fer fram innan og utan skólatíma (lengri ferð í óbyggðir).

       -Hópurinn hittist kl 14-16/17 á miðvikudögum, auk helgarferðar.

       -Helgarferð í óbyggðir á Austurlandi, á haustönn

Öllum áhugasömum nemendum ME er velkomið að sækja um að taka þátt í verkefninu, en valið verður úr umsóknum, því áfanginn rúmar aðeins 12 nemendur.

Við val á umsóknum verður sérstaklega horft til nemenda sem standa frammi fyrir einhvers konar sálfélagslegum hindrunum sem hafa áhrif á líðan og getu (s.s. kvíða, þunglyndi, áföll, átraskanir, félagslegir erfiðleikar, ADHD, námserfiðleikar, lágt sjálfsmat og fleira) og vilja nota áfangann til að efla sig og takast á við eigin tilfinningar og líðan.

Kennari námskeiðsins er Hildur Bergsdóttir félagsráðgjafi og náttúruþerapisti en Hildur er að auki lærður fjallaleiðsögumaður og hefur áratuga reynslu af starfi með ungmennum í gegnum útivist, hreyfingu og sjálfseflingu.

 

Umsóknir skal má nálgast hér. Umsóknir berist fyrir 31. ágúst til Hildar félagsráðgjafa á netfangið hildur@me.is.